Hvarvetna
Með ljóðrænum og þöglum ljósmyndum veitir Berglind áhorfendum frelsi til þess að staðsetja sig í þeim hugblæ sem hún hefur skapað í verki sínu Hvarvetna. Hún nýtir ljósmyndavélina til þess að kynnast nýjum heimabæ sínum og setja hann í sjónrænt samhengi við fyrri heimkynni; smábæi á Íslandi og í Bandaríkjunum. Með því að nota þunga og fyrirferðamikla myndavél, í anda bandarískrar ljósmyndahefðar, hægir Berglind á ferlinu og leitast þannig við að koma eigin tilfinningum og persónulegri sýn á framfæri. Innsæið leiðir Berglindi áfram í vali og uppröðun mynda með það að markmiði að skapa staðleysu og heild sem endurspeglar hennar persónulega heim. Heim sem gæti í raun verið hvar sem er, ef einhverstaðar.
Hvarvetna er ljósmyndaverk þar sem persónulegt sjónarhorn ljósmyndarans af dagfari nærumhverfis kveikir í ímyndunarafli áhorfandans og leyfir honum að uppgötva fegurðina í ljósmyndunum á sinn hátt.