Námið

Markmið Ljósmyndaskólans er að kenna ljósmyndun og aðferðir við að beita tækninni á skapandi hátt og að auka með því valmöguleika í menntun í ljósmyndun með listsköpun að leiðarljósi á Íslandi. Eins er stefna skólans að kynna fjölbreytta möguleika miðilsins og hlutverk hans í samtímalistum.

SKÓLINN:

Árið 2009 fékk Ljósmyndaskólinn viðurkenningu menntamálaráðuneytisins sem sérskóli á framhaldsskólastigi, skv. lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Skólinn hefur verið starfræktur síðan árið 1997. Frá og með skólaárinu 2007–2008 var boðið upp á fimm anna fullt nám við Ljósmyndaskólann og alls hægt að ljúka þar 150 Fein einingum í skapandi ljósmyndun.

Skólinn hefur staðfestingu Menntamálastofnunar sem einkaskóli á framhaldsskólastigi. Sjá viðurkenningarbréf hér.

NÁMSBRAUTIR:

Við skólann er kennt á tveimur námsbrautum;  Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 , 60 Fein  og Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2, 90 Fein.

Er nám beggja námsbrauta skipulagt sem nám á fjórða námsþrepi, viðbótarnám  við framhaldskóla eða nám eftir stúdentspróf.

Að loknu fullu 150 Fein eininga-námi við skólann fá nemendur Diplómu  í skapandi ljósmyndun.

Báðar námsbrautirnar hafa hlotið staðfestingu Menntamálastofnunar sem námsbrautir á fjórða hæfnisþrepi, viðbótarnám við framhaldsskóla.

Í ljósmyndun samtvinnast tæknilegir og listrænir þættir og er því áhersla lögð á kennslu í tækni sem varðar ljósmyndun til jafns við kennslu í aðferðum við listsköpun. Í náminu er áhersla á að nemendur þroski með sér aðferðir við að beita ljósmyndatækninni á skapandi máta. Hljóta þeir þjálfun í að beita tækninni við eigin listsköpun og læra aðferðir til að þróa og halda utan um  hugmyndir sínar og vinnuferli. Einnig er kennd lista- og ljósmyndasaga og skyldar greinar. Nemendur fá æfingu í myndlestri, myndgreiningu og innsýn í kenningar og hugmyndafræði er varða skapandi greinar. Þessir grundvallarþættir eru allir hafðir að leiðarljósi í skipulagningu á námi beggja námsbrauta en áherslumunur er þó á námsframboði brautanna.

Á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 er í fyrirrúmi að kenna á tæknina að baki ljósmyndun, aðferðir við hana sem og alla almenna myndvinnslu. Áhersla er á að nemendur beiti ljósmyndatækninni og aðferðum við myndvinnslu á skapandi máta og hljóta þeir þjálfun í að beita tækninni við eigin listsköpun. Ennfremur eru þeim kynntar ýmsar aðferðir til að þróa hugmyndir sínar og að halda utan um þær sem og eigið vinnuferli.

Á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2 er megináhersla á að nemendur kynnist fjölbreyttu litrófi listsköpunar og helstu birtingarmyndum samtímamyndlistar. Áhersla er lögð á að  þeir þrói og þroski hugmyndir sínar, áherslur og ætlanir með eigin myndsköpun.

Á námstímanum öllum eru nemendur hvattir til gagnrýninnar og skapandi hugsunar, lögð er áhersla á að þeir temji sér öguð vinnubrögð og aukið sjálfstæði í verkum eftir því sem líður á námið. Stefnt er að því að nemendur verði færir um markvissa og persónulega framsetningu á myndverkum af ólíkum toga.

INNTÖKUSKILYRÐI: 

Til að fá inngöngu á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1, þarf umsækjandi að hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu námi. Gerð er krafa um grundvallar tölvukunnáttu. Umsóknum skal fylgja ferilskrá og mappa/portfólía eða önnur verk sem endurspegla skapandi áherslur umsækjanda.

Það að hafa lokið námi  á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 eða sambærilegt nám forsenda þess að geta sótt um nám á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2.

Mappa umsækjanda þarf að innihalda  að minnsta kosti 3-5 verk sem geta verið af ýmsum toga; ljósmyndir, teikningar, klippiverk, hugmyndavinnubók, vídeó eða annað það sem endurspeglar skapandi áherslur umsækjanda. Athugið að hvert verk getur verið samsett úr 1-6 einingum, t.d. 2-6 ljósmyndum eða teikningum eða blöndu af  verkum sem unnin eru með ólíkri tækni.

Hvert verk verður að skapa heild.

FYRIRKOMULAG

Ljósmyndaskólinn býður upp á nám á tveimur námsbrautum í skapandi ljósmyndun. Námsframboð námsbrauta og anna er útskýrt í flokknum Námslýsing, undir flipanum Námið í aðalvalmynd.

Ljósmyndaskólinn starfar í tvær annir ár hvert. Telur hvor um sig 18 vikur og spanna þær  tímabilið frá miðjum ágúst og fram í  maí ef undan er skilið hefðbundið jóla- og páskafrí nemenda og lögbundnir frídagar.

Skólinn býður upp á nám á tveimur námsbrautum. Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 er tveggja anna nám og Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2 þrjár annir. Það að hafa lokið tveggja anna námi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 með fullnægjandi hætti, eða öðru sambærilegu námi, er forsenda þess að geta hafið nám á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2.

Báðar námsbrautirnar hafa hlotið staðfestingu Menntamálastofnunar sem nám á fjórða hæfnisþrepi, nám að loknum framhaldsskóla.

Námið á hvorri námsbraut skiptist í afmarkaða námsþætti eða áfanga. Áfangarnir eru mislangir og þar eru ólíkar áherslur en samfella er í náminu og á hverri önn er byggt ofan á grunn sem þegar hefur verið lagður.

Í áfangalýsingum er gefið upp skyldulesefni áfangans sé þess krafist en einnig er gefið upp ráðlagt lesefni. Kennarar leggja að auki fram margvíslegt lesefni og námsgögn sem þeir hafa útbúið eða tekið saman í samráði við skólastjórnendur. Nemendur eru ætíð hvattir til að leita fanga út fyrir uppgefið lesefni og fá ábendingar þar um.

Stærstur hluti námsefnis er á ensku.

Tungumál skólans er íslenska og að jafnaði er kennt á íslensku nema annað sé tekið fram. Einstaka áfangar eða hluti áfanga eru kenndir af kennurum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og er þá kennt á ensku

Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna