Námsbrautir

Ljósmyndaskólinn býður upp á nám á tveimur námsbrautum.

Ljósmyndaskólinn hefur að markmiði að kenna skapandi ljósmyndun og að undirbúa nemendur til starfa með ljósmyndina sem skapandi miðil eða til frekara náms í skapandi greinum. Í skólanum er boðið upp á nám í skapandi ljósmyndun á tveimur námsbrautum og er sú seinni hugsuð sem framhald af þeirri fyrri. Samfella er í námi þessara tveggja námsbrauta og ætíð bætt ofan á þann grunn sem þegar hefur verið lagður. Á báðum námsbrautum eru kenndar ákveðnar kjarnagreinar, s.s. lista- og ljósmyndasaga, aðferðir við hugmyndavinnu og sköpun og nemendur hljóta þjálfun í því að greina og að fjalla um verk og hugmyndir. Allan námstímann eru nemendur markvisst þjálfaðir í vinnulagi sem nýtist þeim til frekari vinnu og þekkingaröflunar sem og aðferðum við listsköpun. Áhersla er á að þeir leysi ólík verkefni, geti kynnt þau og sett í samhengi við kenningar, hugmyndir eða aðferðir og þroski á námstímanum með sér gagnrýna hugsun á eigin verk og annarra. Enn fremur er áhersla á að virkja sköpunargleði og efla sjálfstæði hvers nemanda. Gerð er krafa um virka þátttöku hans í námsferlinu og ástundun og metnað af hans hálfu. Á öllum stigum náms vinna nemendur verkefni sín undir handleiðslu kennara.

Markmið námsins er að nemendur finni persónulegri listsköpun sinni farveg og verði færir um það að vinna og setja fram myndverk af ólíkum toga með persónulegum hætti. Forsenda þess er að nemendur öðlist þekkingu á ljósmyndatækni og hljóti þjálfun í að beita henni á skapandi máta. Á fyrri námsbrautinni er því lagður grunnur að tæknilegri þekkingu nemenda með kennslu á þann tækjabúnað og aðferðir sem beitt er við ljósmyndun ásamt kennslu í myndvinnslu. Á seinni námsbrautinni er meiri áhersla á tilraunir með miðilinn og sjálfstæða vinnu nemenda, undir handleiðslu. Nemendur eru þá hvattir til að þroska með sér persónulega nálgun á notkun ljósmyndamiðilsins og að skilgreina varðandi það eigin ætlanir og markmið. Eftir því sem líður á námstíma Námsbrautar 2 er skapað rými til aukins sjálfstæðis í sköpun og úrvinnslu verkefna.

Nemendur útskrifast með Diplómu í skapandi ljósmyndun við námslok á síðari námsbrautinni.

Þá er gert ráð fyrir að nemendur:

 • hafi náð góðum tökum á ferlinu, frá hugmynd að fullbúnu verki og séu færir um að leggja fram eigin myndverk
 • hafiöðlast þekkingu á leiðum og færni í að beita ljósmyndamiðlinum við skapandi ljósmyndun með ýmsum hætti
 • hafi tileinkað sér öguð, fagleg og sjálfstæð vinnubrögð og skipulagt vinnuferli
 • hafi þroskað með sér aðferðir við hugmyndavinnu og persónulega nálgun á viðfangsefni
 • hafi náð góðum tökum á ferlinu, frá hugmynd að fullbúnu verki, og séu færir um að leggja fram eigin myndverk
 • hafi tekist á við það að skilgreina ætlanir sínar og markmið með notkun ljósmyndamiðilsins
 • séu í stakk búnir til að kynna hugmyndir sínar og verk og geti skýrt hugmyndalegt inntak og listsögulegar eða hugmyndafræðilegar tilvísanir
 • þekki til helstu stefna og tjáningarleiða innan ljósmyndunar
 • hafi skilning á helstu kenningum og hugtökum samtímalistar
 • hafi hlotið þjálfun í greiningu myndverka jafnt og texta
 • hafi yfirsýn yfir menningarlegt, sögulegt og pólitískt hlutverk ljósmyndamiðilsins og geti tjáð sig um efnið af þekkingu og á gagnrýninn hátt
 • þekki vel til íslenskrar og alþjóðlegrar ljósmyndunar. Þekki sögulegt samhengi ljósmyndunar og tengsl við almenna samfélags- og tækniþróun
 • skilji og geti skýrt áhrif og siðferðilega ábyrgð ljósmyndasköpunar í fjölmiðlun nútímasamfélagsins og hvernig henni er beitt
 • hafi hlotið þjálfun í hagnýtum þáttum þess að starfa sjálfstætt í skapandi greinum.

Á námsbraut í Skapandi ljósmyndun 1, er lagður  grunnur að tæknilegri þekkingu nemenda og kennt á þau verkfæri og þá tækni sem notuð er í ljósmyndun. Nemendur fá æfingu í tilheyrandi verklagi og vinnubrögðum og þurfa að standa skil á fjölda verkefna. Áhersla er á að nemendur beiti skapandi aðferðum við úrlausnir allra verkefna sinna.  Megin viðfangsefnið á námsbrautinni er að kenna á myndavélina, á notkun ólíkra tegunda ljósa, og að nemendur tileinki sér helstu þætti stafrænnar myndvinnslu. Einnig er kennd filmuframköllun og hefðbundin myrkraherbergisvinna. Nemendur fá kennslu í myndbyggingu, formfræði, listasögu, ljósmyndasögu, myndlæsi, hugmyndavinnu og aðferðum við sköpun. Í lok námsbrautarinnar vinna nemendur lokaverkefni sem samþættir alla helstu þætti námsins þessar tvær annir.

Á námsbraut í Skapandi ljósmyndun 2, er aukin áhersla á sjálfstæða vinnu nemenda en undir handleiðslu kennara. Gefst nemendum möguleiki á að þróa og útfæra eigin hugmyndir og verkefni. Þeir eru krafðir um að skilgreina persónulegar áherslur í ljósmyndun og hljóta þjálfun í því að útskýra ætlanir og markmið og setja í hugmyndafræðilegt samhengi. Áhersla er einnig á að kynna nemendum ýmis hagnýt atriði er varða það að starfa í listheiminum, s.s. eins og að undirbúa sýningar, standa að kynningum á samfélagsmiðlum, sækja um styrki og hvernig standa beri að  þátttöku í samkeppnum. Einnig læra nemendur grundvallar bókhalds- og markaðsfræði. Að auki eru áfram kennd kjarnafög, s.s. aðferðir við hugmyndavinnu, lista- og ljósmyndasaga og nemendur fá þjálfun í að greina og fjalla um myndverk, texta og hugmyndir. Í lok náms á þriðju önn námsbrautarinnar vinna nemendur viðamikið lokaverkefni og skrifa fræðilega lokaritgerð.

Nánar er fjallað um námsframboð námsbrauta, markmið og áherslur í þeim hluta námskrár er fjallar um námslýsingu.

Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna