Faldi mig í sprungum fjallsins
Í verkinu Faldi mig í sprungum fjallsins er Hendrikka að vinna með innra líf einstaklingsins og yfirþyrmandi tilfinningar. Hún sækir innblástur í náttúruna og sér sjálfa sig í óheflaðri fegurð hennar og leitast við að setja það ósýnilega sem býr innra með okkur í sýnilegan búning með myndmáli náttúrunnar. Í verkum Hendrikku endurspeglar náttúran því yfirgnæfandi og ógnvekjandi mannlegar tilfinningar sem geta verið íþyngjandi og erfiðar að takast á við. Hendrikka leitast við að birta andstæðar hliðar manneskjunnar á einlægan hátt, hið góða og hið slæma, hið sýnilega og hið falda, fegurðina og ljótleikann.
Hendrikka setur myndirnar fram í tvennum og vinnur á þann hátt með lausn og uppgjör á innri ólgu þar sem yfirþyrmandi tilfinning er ráðandi annars vegar og hins vegar er búið að aðskilja hana frá manneskjunni, hún komin út úr aðstæðunum og eftir situr tilfinningin ein.