Listamaður vikunnar – Helgi Vignir Bragason – Speglun tímans

Listamaður vikunnar hefur hluta af vegg í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og getur birt þar verk sín. Nemendur eru hvattir til þess að nota tækifærið og gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum.

Listamaður þessarar viku er Helgi Vignir Bragason nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1.

Hann sýnir verkefni sem hann vann í áfanganum Aðferðir við listsköpun undir handleiðslu Spessa.

Í áfanganum  fengu nemendur það verkefni að vinna með þrjú hverfi á höfuðborgarsvæðinu sem öll eiga það sammerkt að vera að breyta um hlutverk og þróast úr því að vera  eingöngu iðnaðarhverfi yfir í það að vera hverfi þar sem byggð er blönduð.

Nemendur beittu ýmsum aðferðum rannsóknarvinnu við að leysa þetta verkefni.

 

Speglun tímans

Í gegnum rannsóknarvinnu í tengslum við áfangann Aðferðir við listsköpun undir handleiðslu Spessa komst ég á snoðir um stórhuga hugmyndir um glerframleiðslu í Vogahverfinu austan við Sæbraut um miðja síðustu öld. Árið 1954 hóf fyrirtækið Glersteypan hf. að reisa 1400 fermetra járnklætt stálgrindarhús á lóðinni við Súðarvogi 4. Þetta var fyrsta glerverksmiðjan sem sett var á fót á Íslandi og til stóð að hún myndi vera með um 50-60 starfsmenn og framleiða allt gler fyrir íslenskan markað. Fyrirtækið átti hins vegar frá upphafi í miklum vanda því að framleiðslan reyndist gölluð og myndaðist fljótlega mikið glerfjall á verksmiðjulóðinni. Í kjölfarið komst fyrirtækið í greiðsluþrot og var strax í ársbyrjun 1957 tekið til gjaldþrotaskipta. Þessi rannsóknarvinna og saga glersins í þessu hverfi varð kveikjan að verkinu Speglun tímans.

Vogahverfið er að taka miklum breytingum þessa stundina. Léttur iðnaður er að víkja fyrir íbúðarbyggð og því mikill uppbygging á svæðinu. Verkið Speglun tímans er ein útfærsla af skrásetning á þessum breytingum. Myndirnar í verkinu eru allar teknir af tvöföldu gleri húsanna í hverfinu. Gler sem allt er innflutt því draumar um framleiðslu á gleri á Íslandi urðu að engu eftir afdrifarík örlög Glersteypunnar. Myndirnar eru teknar með halla á glerflötinn til að þær myndi spegilmynd þess sem er fyrir utan, en sýna þó ef grannt er skoðað, líka það sem er fyrir innan. Með því að mynda á þennan hátt verða myndirnar óskýrar og draumkenndar. Þær sýna því í raun tvo tíma, bæði fortíð og nútíð.

Instagram@helgi.vignir

 

 

Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna
Umhverfisstefna
Stefnur og viðbragðsáætlanir
Ársreikningar og skýrslur
Ársreikningar og skýrslur