Á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 er kenndur áfanginn Svarthvít filmuframköllun og stækkun. Þar læra nemendur að framkalla svarthvítar filmur, gera kontakta af filmum, sem er nokkurskonar yfirlitsmynd af filmunni og svo kynnast nemendur því hvernig best er að geyma filmur og að halda utan um filmusafn. Nemendur læra á búnað myrkraherbergis og það að stækka ljósmyndir af filmu á pappír. Í áfanganum er lika farið í það hvernig handprentaðar myndir eru skornar, settar upp í karton og gengið frá þeim í ramma.
Hér eru nokkrar myndir sem Stefanía Jóhönnudóttir, nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 tók af vinnu sinni í myrkraherberginu.
Þegar búið er að taka myndir á filmuna er filman framkölluð, skoluð og látin þorna. Svo er hún klippt niður og sett í plast og þá gerður „kontaktur“, sem er yfirlitsmynd yfir það sem er á filmunni. Mynd til að stækka er valin með því að skoða „kontaktinn“ og filmuna í gegnum stækkunargler (lúpu) á ljósaborði.
Í myrkraherberginu þarf fyrst að gera prufu á stillingum á stækkara t.d hvaða skerpa hentar þeirri mynd sem valin var til stækkunar og hvaða lýsingartími. Svo er myndin lýst/ prentuð á pappír og fer því næst í gegnum 3 tegundir af vökvum. Pappírinn þarf að vera tiltekinn tíma í hverjum þeirra. Þá er prentið skolað og svo þurrkað á grindum.
Þegar prentið er orðið þurrt er það skorið og í framhaldinu hægt að ganga frá myndinni í karton eða ramma.