Listamaður vikunnar hefur pláss í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og nemendur hvattir til þess að sækja um og að nota tækifærið til að gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum sínum.
Verkefnavalið er fjölbreytt og nemendur sýna skilaverkefni úr áföngum námsins eða önnur verkefni sem þau eru að vinna að.
Listamaður vikunnar að þessu sinni er Ósk Ebenesersdóttir nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1. Hún sýnir myndir úr sjálfstæðu verkefni frá haustmisseri sem hún nefnir Ströndin í Eastbourne.
Ósk lætur eftirfarandi texta fylgja:
Á haustmorgni opnast heimur þar sem kyrrð og kraftur mætast, heimur sem er sveipaður dulúð og nostalgíu.
Bryggjan (Eastbourne Pier) stendur, stolt tákn fortíðar jaft og nútíðar. Ungmenni leika sér frjálslega, og vindurinn, fullur orku, strýkur strá sem dansa taktfast í náttúrunni.
Með ICM-tækninni (Intentional Camera Movement) er landslagið málað á draumkenndan hátt.
Í einni myndinni má sjá leynileg skilaboð: skammstöfunina „IS“. Leitið og þér munuð finna.
/sr.