Listamaður/listakona vikunnar hefur pláss í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og nemendur hvattir til þess að sækja um og að nota tækifærið til að gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum sínum.
Verkefnavalið er fjölbreytt og nemendur sýna skilaverkefni úr áföngum námsins eða önnur verkefni sem þau eru að vinna að.
Auður Lilja Arnþórsdóttir nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 er listamaður þessarar viku.
Hún lætur eftirfarandi orð fylgja Upprisa og fall rabbabarans:
Hugmyndin að þessu verki varð til í áfanga hjá Einari Fal Ingólfssyni í vor þar sem verkefnið var að skapa persónulegt heimildarverk út frá sjálfum sér eða nærumhverfinu. Hjá mér varð rabbabarinn minn fyrir valinu en hann var þá að stinga upp kollinum eftir vetrardvala. Í haust bætti ég svo í verkið og myndaði hann þar sem hann var fallinn fyrir fyrsta frosti.
Mér finnst rabbabarinn skemmtilegt dæmi um hringrás lífsins og líka gott dæmi um hvað þarf að fara stutt til að finna áhugavert myndefni.
Ég lít á þetta sem verk í vinnslu því nú er ég komin með dellu fyrir rabbabara og á eftir að fylgjast með honum og mynda áfram á hinum ýmsu stigum. Ég vona að áhorfendur skynji líka húmorinn í verkinu – mitt mottó er að taka lífinu ekki of hátíðlega.






/sr.