Listamaður vikunnar – Rannveig Björk Gylfa – Nýtt upphaf

Listamaður/listakona vikunnar hefur pláss í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og nemendur hvattir til þess að sækja um og að nota tækifærið til að gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum sínum.
Verkefnavalið er fjölbreytt og nemendur sýna skilaverkefni úr áföngum námsins eða önnur verkefni sem þau eru að vinna að.

Listamaður vikunnar er Rannveig Björk Gylfa, nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 og hún segir þetta um myndaröina:

Nýtt upphaf / „A New Beginning“

Eftirfarandi myndasería var unnin í Ljósmyndaskólanum s.l. haust hjá Heiðu Helgadóttur í áfanganum; „Að segja sögur með myndum.“ Um leið og höfundur áttaði sig á að sagan ætti að sýna persónulega sögu með trúveruleika, þá datt honum í hug að sýna daglegan veruleika transfólks, til þess að vekja athygli á þeirra málstað, ekki síst þar sem mörg sæta í dag víða um heim mannréttindabrotum.

Höfundur vill þakka kærlega, Alexíu Stjörnu, fyrir frábæra samvinnu, traust á verkefninu og fyrir að leggja til fyrir birtinguna núna, einstaka og einlæga frásögn um upplifun hennar á sínu lífi með nýju upphafi sem transkona.

Alexía segir að þó að réttindi transfólks á Íslandi séu víða talin góð segir reynsla hennar annað um stöðu hennar og annarra í sömu stöðu innan heilbrigðiskerfisins. Þegar hún hóf ferli sitt fyrir innan við fjórum árum var sex mánaða sálrænt greiningarferli við lýði, sem síðar var lagt af samhliða skipulagsbreytingum sem lengdu biðlista enn frekar. Fjársvelting heilbrigðiskerfisins hefur einnig haft veruleg áhrif. Bið hennar eftir að hefja krosshormónameðferð var um 550 dagar, þrátt fyrir endurtekin loforð um að hún væri senn á enda.

Hún segir að kynrænt sjálfræði sé enn aðeins að hluta virt innan heilbrigðiskerfisins, sem birtist í löngum biðum, ofurvarfærni og úreltum verklagsreglum. Fyrir mörg er krosshormónameðferð bráðnauðsynleg. Þennan veruleika þarf að taka með í reikninginn við útfærslu kynræns sjálfræðis, þótt jákvætt sé að lagaleg skilgreining sé möguleg, þá gerist það jafnvel áður en heilbrigðiskerfið veitir sambærilega viðurkenningu.

Rannveig Björk Gylfa (Rannsý)

Vefsíða: https://www.rannsybjorkmindfulphotos.com/

Instagram: https://www.instagram.com/rannsybjorkmindfulphotos/

„Á ljósmyndum af mér núna má kannski greina þær óumflýjanlegar breytingar sem flöskuháls heilbrigðiskerfisins olli að einhverju leyti, en vonandi sjáið þið þó frekar ávöxtun lyfjanna, stuðning fólksins sem er mér næst og hve vel mér líður nú í eigin skinni. Ég á enn langt í land að draumnum um að ég sjái mig að fullu i spegli og myndum, en ég ber þann veruleika og draum brennandi i brjósti mér og fólkið sem er mér næst kyndir undir þann loga með því að viðurkenna og þykja vænt um raunverulega tilvist mína. Nú, hinum megin við biðina teljast góðu dagarnir nú fleiri en hinir slæmu. Frá fyrsta degi krosshormónameðferðar var tilvera mín betrumbætt og leið mér eins og hinum mesta þunga væri lyft af mér og allt sem kramdist þar undir er nú að gróa og sprungurnar baðaðar i gulli líkt og á „Kintsugi“-gripum.

Það er gjöf að vera til og meðfylgjandi sár og aldur móta okkur í heildstæðara og einstakara fólk. Trans- tilveran er einstök og ég vonast til að sjá meira einstakt fólk eins og mig i framtíðinni og að allar hömlur séu á hverfandi hveli þó að heimurinn virðist oft á leið til heljar i kringum okkur þessa dagana.

Eitt lag sem kom mér hvað lengst i gegnum meðfylgjandi þunga biðlistana var, „Það styttir alltaf upp“ með Ragga Bjarna. Það ítrekar það að finna þá nautn og kærleik sem þið getið haldið í, innan um alla stormana: „Það hvessir, það rignir, en það styttir alltaf upp og lygnir.“

Mbk, Alexía Stjarna“

/sr.

Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna
Umhverfisstefna
Stefnur og viðbragðsáætlanir
Ársreikningar og skýrslur
Ársreikningar og skýrslur