Í janúar og fyrrihluta febrúar hafa nemendur Námsbrautar í skapandi ljósmyndun 2 unnið undir handleiðslu Berglindar Jónu Hlynsdóttur í áfanganum Að vinna með safn. Nemendur unnu með einhvers konar safn ljósmynda sem þegar var til orðið. Þau leituðu víða fanga og sóttu efniviðinn meðal annars til bernsku sinnar eða í söfn ljósmynda og annars efnis úr fórum ættmenna.
Markmið áfangans er að kynna nemendum leiðir til að vinna verk úr safni ljósmynda sem þegar er til orðið. Nemendur fá þjálfun í að vinna með slíkt safn ljósmynda eða annars efnis og skoðað var hvernig slíkur efniviður getur leitt til ófyrirséðrar niðurstöðu.
Í áfanganum kynntust nemendur ýmsum listamönnum sem vinna á þennan máta. Einnig voru skoðaðir staðir sem geyma safnkost sem gæti verið uppspretta efniviðs til að vinna með og má nefna sem dæmi Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Borgarskjalasafn.
Að lokinni yfirferð í áfanganum höfðu nemendur sýningaropnun og buðu nánustu fjölskyldu og vinum að koma í skólann og sjá afraksturinn af þeirri vinnu sem fram fór í áfanganum.
Hér má sjá nokkrar myndir frá yfirferð og opnun og eins og sjá má voru verkefni nemenda fjölbreytt og útfærslan einnig.
/sr.