Við lok náms á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 taka nemendur áfanga sem nefnist Lokaverkefni. Þar er markmiðið að samþætta alla námsþætti námsbrautarinnar og að gefa nemendum tækifæri til þess að fara í gegnum ferlið frá hugmynd til fullbúins verks með eina af hugmyndum sínum.
Nemendur velja eitt af skilaverkefnum námsársins og fá aðstoð við að útfæra það til sýningar á Uppskeruhátíð. Það var Claudia Hausfeld sem vann með nemendum í áfanganum.
Brynja Bærings Sindradóttir – Tímalaus tengsl
Verkefnið er persónuleg könnun á tengslum mínum við fjölskyldu mína og dýrmætan stað frá barnæsku minni. Með verkinu bý ég til frásögn sem sameinar fegurð íslenskrar sveitar og kunnuglega hlýju fjölskyldunnar. Með því að staðsetja foreldra mína í senum sem minna á friðsælt sveitaumhverfi býð ég áhorfendum inn í heim persónulegra endurminninga og tengsla.
Hver ljósmynd er sjónræn framsetning á varanlegum tengslum mínum við foreldra mína og sýnir sameiginlega reynslu og tilfinningalega tengingu við að alast upp í einstöku umhverfi.
Með því að nota sömu tækni og í tískumyndatökum undirstrika ég blöndu nútímastíls og tímalausrar tengingu við fjölskyldu og stað.