Við lok náms á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 taka nemendur áfanga sem nefnist Lokaverkefni. Þar er markmiðið að samþætta alla námsþætti námsbrautarinnar og að gefa nemendum tækifæri til þess að fara í gegnum ferlið frá hugmynd til fullbúins verks með eina af hugmyndum sínum.
Nemendur velja eitt af skilaverkefnum námsársins og fá aðstoð við að útfæra það til sýningar á Uppskeruhátíð. Það var Claudia Hausfeld sem vann með nemendum í áfanganum.
Gunnar Freyr Ragnarsson – Einsemd
Verkið „Einsemd“ var upphaflega unnið hjá henni Hallgerði Hallgrímsdóttur í vinnustofunni Að þróa persónulegt myndmál.
Verkið snýst um að fanga mannlífið við vinsæla verslunargötu í Reykjavík. Þessi hugmynd spratt upp vegna áhuga á götu- og heimildarmyndatöku þar sem ég nýti svart/hvítt myndform til að gera myndirnar meira tímalausar. Mér finnst ánægjulegt að skrásetja hversdagslífið í kringum mig með ljósmyndun. Í þessu verki ákvað ég að einbeita mér að því sem mætti nefna einveru fólks, sýna einstaklinga eina á mynd. Þó ég þekki ekki til þeirra, líta þeir út fyrir að vera í eigin hugarheimi. Kannski eru þeir ekki einmanna eða einstæðingar en það er áhorfenda að meta það.