Enn er hátíð í bæ þó jólin séu liðin.
Ljósmyndahátíð Íslands hefst þann 13. janúar og stendur til loka mars.
Ljósmyndahátíð Íslands er alþjóðleg hátíð sem haldin er í janúar annað hvert ár. Markmið hátíðarinnar er að vinna að framþróun ljósmyndunnar sem listforms. Hátíðin er nú haldin í 6. skipti og verða af því tilefni opnaðar nýjar sýningar í Ásmundarsal, BERG Contemporary, Gallery Port, Gerðarsafni, Hafnarborg, Korpúlfsstöðum, Listasafni Íslands, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, RAMskram gallerí, og Þjóðminjasafni Íslands.
Allar sýningarnar eiga það sammerkt að þar er ljósmyndamiðillinn í aðalhlutverki, en sýningarnar þó afar ólíkar hvað varðar framsetningu, nálgun listamannanna, viðfangsefni og aðferðir svo nokkuð sé nefnt.
Fyrstu opnanir Ljósmyndhátíðar Íslands 2022 verða þann 13. janúar í Gallery Port og 14. janúar í Gerðarsafni. Hátíðin verður ekki sett formlega að þessu sinni vegna samkomutakmarkana, en sérstök viðburðarhelgi verður haldin síðustu viku hátíðarinnar, í lok mars, með fjölbreyttum viðburðum svo sem bókasýningu, ljósmyndarýni og málþingi í Listasafni Íslands.
Á dagskrá hátíðarinnar 2022 eru þrettán sýningar með erlendum og íslenskum listamönnum, fyrirlestrar, ljósmyndabókakynningar og ljósmyndarýni.
Vettvangur hátíðarinnar er opinber söfn á höfuðborgarsvæðinu, gallerí og önnur sýningarými.
Dagskrá hátíðarinnar og viðburði má kynna sér á heimasíðu Ljósmyndahátíðar Íslands, www.tipf.is.
Listrænir stjórnendur hátíðarinnar eru:
Pétur Thomsen (s. 899-8014) og Katrín Elvarsdóttir (s. 869-7189).
Í Víðsjá var fjallað nokkuð ítarlega um Ljósmyndahátíð Íslands. Meðal annars voru skipuleggjendurnir Katrín og Pétur tekin tali og einnig var spjallað við nokkra af þeim listamönnum sem sýna á hátíðinni.
/sr.