Á Uppskeruhátíð vorið 2022 sýndi Heiðrún Fivelstad nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1, verkið Skítugt blóð. Hún segir þetta um verkið:
Verkið Skítugt blóð fjallar um blóðgjöf hinsegin karlmanna. Þegar ég hóf rannsóknarvinnu fyrir þetta verk hélt ég að hinsegin karlmenn mættu gefa blóð hér á landi með ákveðnum skilyrðum því það taldi ég mig hafa lesið í fréttum. Um var hins vegar að ræða lagabreytingartillögur sem aldrei fóru í gegn og er það svo að þeir mega enn ekki gefa blóð. Mig langaði til að vekja athygli á þessum úreltu lögum á nýstárlegan hátt og úr varð þetta verk.
Myndin er portrett af hinsegin karlmanni og yfir hana er skrifað með blóði úr hinsegin karlmanni „Skítugt blóð„. Með því vil ég benda á að það eru skilaboðin sem yfirvöld senda til hinsegin karlmanna með þessari löggjöf – að þeir séu á einhvern hátt skítugri en annað fólk einungis vegna kynhneigðar.
Nánar er hægt að lesa um verkið, vinnslu þess og stöðu löggjafarinnar hér: https://gayiceland.is/2022/painting-with-dirty-blood/