Helgi Vignir Bragason er einn af þeim nemendum Ljósmyndaskólans sem nú útskrifast með diplómu í skapandi ljósmyndun.
Útskriftarverk hans heitir Lífsferilsgreining.
Helgi skrifar eftirfarandi texta með verkinu.
Lífsferilsgreining
Kerfismót, stoðveggur, þéttifrauð, fjarlægðarklossi, fallvarnir eða einangrunarlímband. Allt hefur sinn lífsferil sem getur verið langur eða stuttur. Það á jafnt við um byggingar og byggingarefni sem og allar lífandi verur. Allt hefur upphaf og endi.
Verkið Lífsferilsgreining er myndræn rannsókn á byggingum og byggingarefnum. Verkið sýnir ákveðin augnablik lífsferilsins, allt frá upphafsstigum til endaloka. Lífsferilsgreining (Life-Cycle Assessment) vísar í aðferðafræði sem notuð er í byggingariðnaðnum til að meta staðbundin og hnattræn umhverfisáhrif vöru eða þjónustu yfir líftímann eða „frá vöggu til grafar“.
Mörg ljósmyndaverk mín snúa að mannvirkjaframkvæmdum, en þar liggur bakgrunnur minn. Sem barn og unglingur starfaði ég við jarðvinnuframkvæmdir, síðar sem húsasmiður og svo sem byggingafræðingur. Ég hef andað þessu að mér alla tíð, allan minn lífsferil.
Verkið Lífsferilsgreining er sett fram sem bókverk í anda útboðsgagna eða skýrslugerðar úr byggingariðnaðnum. Ljósmyndirnar í verkinu eru litríkar og formfastar með fagurfræðilegri myndbyggingu. Þær eru mannlausar en bera allar með sér ummerki mannsins. Sumar sýna byggingarsvæði í fjarveru mannsins; þau augnablik þegar allt er kyrrt og lýsa þá einskonar biðstöðu. Aðrar eru uppstilltar kyrralífsmyndir úr byggingarúrgangi. Við þetta blandast teikningar af byggingum sem búið er að rífa. Textarnir í verkinu eru minningar mínar sem tengjast þessum iðnaði og endurspegla áhrif iðnaðarins á líf mitt.
Skoða má fleiri verk Helga hér @Helgi.vignir
og hér helgivignir.is
/sir.