Hjördís Eyþórsdóttir sýnir Silfurbúrið í Gallerý Port

Hjördís Eyþórsdóttir sýnir verk sitt Silfurbúrið í Gallerý Port á Laugavegi 32. Sýningin er hluti af fjölbretyttri dagskrá Ljósmyndahátíðar Íslands 2022 sem nú stendur yfir og stendur hátíðin raunar til loka mars.

Sýning Hjördísar stendur til 20. janúar.


Hjördís útskifaðist frá Ljósmyndaskólanum í janúar 2020. Útskriftarverk hennar nefndist Put all our treasures together og var bókverk.

Við tókum Hjördísi tali á dögunum og spurðum hana aðeins út í sýninguna, hvað væri á döfinni hjá henni og lífið og listina eftir að námi lauk við Ljósmyndaskólann.

Til hamingju með sýninguna Hjördís.

Viltu segja okkur eitthvað meira um tilurð Silfurbúrsins? Er það persónuleg viðleitni til að leita fegurðarinnar?

Eins og með fyrra verkið mitt (Put all our Treasures together) þá kom Silfurbúrið til svolítið samferða því að ég var að safna efni í sögu um lífið fyrir vestan. Já ég held að það sé alltaf fegurðin sem ég er að leita að. Kannski töfrar eða fjársjóðir í lífinu, bæði í samskiptum við fólk og samfélag, úti og inni í mér. Það er náttúrulega erfitt að fá svar við spurningunni hver tilgangur lífsins sé en allt sem við gerum á meðan við erum hér hlýtur að vera partur af svarinu 

 Er Silfurbúrið þá einhverskonar framhald (sjálfstætt)af útskriftarverkefninu þínu frá Ljósmyndaskólanum; bókverkinu Put all our Treasures Together?

Já í rauninni. Ómeðvitað er þetta framhald, ég er að velta fyrir mér sömu spurningum þó þær séu aðeins formfastari í Silfurbúrinu og vonandi aðeins þroskaðri. Það er þessi ganga í gegnum lífið sem er mér svo hugleikin. Bæði verkin eru að tækla svipaðar spurningar.

 Í Gallerý Porti sýnir þú líka önnur verk; verk sem eru einhverskonar tilraunir í myrkraherberginu Hvað viltu segja okkur um þau?

Þau verk urðu til sem andsvar við því að ég var orðin kennari og vildi ekki deyja sem nemandi/listamaður. Vildi vera að skapa og búa til og læra áfram. Ég fékk stórkostlega stöðu sem verkstæðisstjóri í LHÍ og aðstaðan þar bauð upp á mjög frjó samtöl og aðstöðu til tilrauna. Svartstálsskúlptúrarnir eru algjör tilraun til að notast við annað „subject“ en ég hef gert. Ég fór að velta því fyrir mér hvernig form eru svo náttúrulega þó þau séu tilviljanakennd. Hvernig allt og allir hlutir leitast alltaf við það sama. Þessi skúlptúrar eru afgangsskorningar af renndu svartstáli og lögun þeirra tilviljanakennd. Samt minna þeir á stafi í stafrófi eða jafnvel bakteríur undir smásjá. Þeir eru rusl, afgangur, eitthvað sem var kastað í ruslatunnu. Ég prófaði mig áfram með þá og gerði þeim hátt undir höfuð að sýna þá á hinu merkilega silfurprenti. Þeir þýða ekki neitt og eru ekki neitt en fá mann samt til að skoða og pæla í uppruna þeirra. 

Er þetta verkefni sem þú ætlar að þróa áfram?

Mig langar það, en er ekki alveg viss. 

Staða ljósmyndunar hefur breyst mikið á síðustu áratugum og hún er nú æ oftar viðurkennd sem ein grein lista. Hvað er ljósmyndun fyrir þér? Hver er þín sýn á beitingu miðilsins?

Já ég tek því svo fagnandi hvernig ljósmyndin er að þróast. Fyrir mér er hún töfrar út í gegn. Vísindaleg og heimspekileg á sama tíma og hún er listgrein. Stórkostlegur miðill. Ég hugsaði alltaf um ljósmyndun sem tímavél og hún væri að sýna mér það sem var og fara með mig aftur í tímann. Svo er sannleiksgildi miðilsins eitthvað sem hægt er að grúska í og tala um fram og til baka. Á sama tíma og allt sem í rammanum er er satt þá er alltaf hægt að túlka og „manípúlera“ viðfangsefnið á allt annan hátt. Þar kemur áhorfandinn inn í og skiptir svo miklu mái. 

Hvað er næst á döfinni? Að hverju ertu að vinna?

Ég var að klára einkasýninguna mína og fer aftur í vinnuna í vikunni. Ég er einnig að fara að taka þátt í og var valin sem kandídat Íslendinga í ,,In Progress” sem er Nordic Talent Mentorship. Við erum semsagt fjögur öll frá sitthvoru landinu að taka þátt.  Það er ótrúlega spennandi 8 mánaða verkefni þar sem ég dýpka verk sem ég er nú þegar byrjuð á eða byrja á nýju undir handleiðslu. Í lokin er svo samsýning okkar í Landskrona Foto sem er ljósmyndahátíð í Svíþjóð.

 Til hamingju með það Hjördís! Nú útskrifaðist þú úr Ljósmyndaskólanum fyrir tveimur árum síðan. Hvaða áskorunum hefur þú mætt í listsköpun þinni/verkefnum?

Þetta hefur verið allskonar, það er helst að standa með ákvörðununni að gera þetta bara. Að fylgja sinni listsköpun. Ég hef verið mjög heppin, fengið stórkostleg tækifæri og fékk einnig fasta vinnu í Listaháskólanum sem gefur mér auðvitað öryggi. Það var alveg viðbúið að þetta yrði alltaf hark og svo bara tekur maður ákvörðun hvort það hentar sér eða ekki. Fyrir mér skiptir lífið meira máli en listin og hún er bara lítið fallegt kirsuber sem ég er aldrei að fara að deyja fyrir. Á meðan ég hef eitthvað að segja og ég held áfram að læra og opna hugann minn þá held ég áfram. Annars er alltaf stutt í löngunina að vera bara kartöflubóndi.

Heimasíða Hjördísar er http://www.hjordiseythors.com og þar er hægt að kynna sér verk hennar.

/sr.

Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna