Sýning á útskriftarverkum þeirra nemenda sem útskrifast frá Ljósmyndaskólnaum í desember 2024, stendur í Ljósmyndasafni Reykjavíkur til 5. janúar 2025.
Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.
Ingunn Haraldsdóttir er ein af útskriftarnemendum Ljósmyndaskólans að þessu sinni.
Útskriftarverkefni hennar heitir Hvernig svafstu í nótt?
Ingunn er þar að vinna með fundið efni meðal annars úr fórum fjölskyldunnar. Það samanstendur af ljósmyndum og vídeóverki.
Hún lætur eftirfarandi texta fylgja verkinu:
Æskuheimili móður minnar er hvítt og stórt. Fyrirferðarmikið. Það hefur erfst í beinan ættlegg. Það lítur eins út nú og þá, en það er ekki sama húsið. Mamma og amma voru í húsinu þegar sprengingin varð.
Ég vaknaði fyrir fimm við lætin. Það var svartamyrkur en ég fann fyrir heitri gufu. Ég byrjaði að klæða mig í fötin sem ég var búin að hafa til fyrir daginn. „Vertu kyrr, Helga,“ heyrði ég mömmu kalla til mín. Ég man ekki hverju ég svaraði en ég hlustaði og beið. Ég sá ekkert fyrir hvítu gufunni nema ljósin sem voru í kring. Allt í einu var ég komin niður á grasið.
Ég er farin að upplifa minningar annarra sem mínar eigin. Flytjast minningar á milli kynslóða?
Æskuheimili móður minnar var endurreist eftir sprenginguna. Það lítur eins út í dag, en það er ekki sama húsið. Í 30 ár, einu sinni á ári, þann 27. nóvember, hringdi amma í mömmu og spurði „Hvernig svafstu í nótt?“
Það er í eina skiptið sem minnst er á atburðinn.
Ljósmyndir úr fjölskyldualbúmum
Litmyndir: Gunnar Ólafsson
Svarthvít mynd: Ljósmyndari óþekktur
Videó: Úr safni RÚV.