Nemendur Námsbrautar í skapandi ljósmyndun 2 taka vinnustofuna Ljósmyndabókin. Arnar Freyr Guðmundsson leiddi vinnuna.
Megin markmið áfangans er að nemendur vinni eigin hugmynd í drög að bókverki. Kynnist vinnuaðferðum sem hægt er að beita við gerð bókverka og þjálfist í því að afmarka efni, að slípa þráð og skerpa á framsetningu í myndrænni frásögn. Markmiðið er einnig að nemendur kynnist ólíkum leiðum við framsetningu efnis í bókverki og auki við þekkingu á mikilvægi bókverka í samtímalistum.
Skilaverkefni nemenda í þessum áfanga eru fjölbreytt og framsetningin einnig enda möguleikar í bókverkagerð nánast óþrjótandi.
Iris Hadda Jóhannsdóttir gerði bókverkið Rauð klamidíuviðvörun í miðbænum um helgina og birti útgáfu af verkefninu í harmonikkubók.
Verkið er langtíma rannsókn sem Iris Hadda hefur unnið að síðan 2018. Þar rannsakar hún afl mynda til að segja sögur. Hún velti fyrir sér fótspori okkar á samfélagsmiðlum og hvernig myndir byggja ímynd, karakter, af notenda á netinu.
Verkið er samansafn ljósmynda sem eiga samtal innbyrðis og það er áhorfanda að túlka og byggja upp merkingu þeirra.
Hér má sjá nokkrar myndir úr verkinu.