Sýning á útskriftarverkum þeirra nemenda sem útskrifast frá Ljósmyndaskólanum í desember 2025, opnar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur þann 12. des. kl. 16.00.
Sýningin stendur til 11. janúar 2026 og á sýningatímabilinu bjóða útskriftarnemendur upp á leiðsagnir um sýninguna. Sjá nánar um það á síðum Ljósmyndasafns Reykjavíkur og miðlum Ljósmyndaskólans.
Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.
Sýningarstjóri er Katrín Elvarsdóttir.
Íris Hadda – „Rauð klamídíuviðvörun í miðbænum“
„Rauð klamídíuviðvörun í miðbænum“ er sjónræn skáldsaga um þrá, sælu og þau ummerki sem snerting skilur eftir sig. Titillinn sem tekinn er orðrétt úr fyrirsögn íslensks fréttablaðs, vísar til þess hvernig ástúð og nánd hríslast um mannslíkama og minningar, líkt og smitsjúkdómur. Með andlitsmyndum og brotum úr eigin reynsluheimi skapar Íris Hadda frásögn sem er bæði persónuleg og gjörningakennd, þar sem skiptist á viðkvæmni, húmor og hljóðlát óværð. Myndirnar líða um einkarými yfir í borgarnætur og draga upp mynd af kynnum sem virka í senn hverful og þrungin spennu.
Flestar ljósmyndanna eru fangaðar á Fujifilm skyndimyndavél og var því hver mynd prentuð um leið og hún var tekin. Þessi milliliðalausa afurð útilokar endurbætur og varðveitir spennuna milli þess sem tókst að fanga, hins sem slapp eða er hálfpartinn hulið óminni. Í framsetningu sem ljósmyndabók og skyggnusýning, opinberast verkið í ólíkum takti — tiltækt, í hendi, eða flöktandi í fjarlægð. Skapað á þröskuldi fertugsaldurs felur verkið í sér hugleiðingar um alsælu æskuáranna og þeim mildu eftirköstum sem fylgja í kjölfar óhófs.



/sr.