Kristín Ásta Kristinsdóttir – Flóttabörnin okkar

Kristín Ásta Kristinsdóttir sýnir Flóttabörnin okkar í galleríinu í Epal á Laugavegi 7. Sýningin stendur til 21. mars næstkomandi.

Verkin á sýningunni eru öll til sölu og allur ágóði rennur til samtakanna Réttur barna á flótta.

Við hittum Kristínu og báðum hana að segja okkur stuttlega frá þessu verkefni og hvernig það kom til.

„Hugmyndin kom í kjölfar útskriftarverkefnis míns sem var einnig um samfélagsleg málefni. (sjá nánar í viðtali við Frbl) Mér finnst áhugavert að nota ljósmyndamiðilinn til að beina athygli að málefnum sem maður brennur fyrir. Börn og fólk á flótta er mikið í umræðunni núna og verið að taka útlendingafrumvarpið fyrir á Alþingi. Þar er þetta rætt sem tölur á blaði og fólk skiptist í fylkingar með hvernig eigi að taka á málefnum flóttamanna. Mér finnst ég líka oft heyra mótrökin vera þau að t.d. heimilislausir eigi ekki í hús að vernda. Mér finnst mikilvægt að við skiptum ekki einu mikilvægu málefni út fyrir annað. Mig langaði, einlæglega, að segja með þessum myndum að það skiptir ekki máli hvar börn fæðast – eða hverjir foreldrar þess eru – þau eiga öll rétt, án mismununar, til umönnunar og verndar. Við hljótum öll að geta sammælst um það.„

Hvernig nálgaðist þú þetta verkefni?

„Hingað til hefur reynst mér best að vinna rannsóknarvinnu og hugmyndafræðina til hlítar áður en ég mynda. Í þessu tilfelli var ég lesa gögn um tölfræði um börn sem sóttu vernd til Íslands á síðasta ári. Fjölda, hvaðan þau voru, hversu mörg komu fylgdarlaus og þar fram eftir götunum. Ég ákvað að vinna litina út frá þjóðfánum þeirra landa sem börnin voru frá. Ég náði, eðli máls samkvæmt, ekki öllum þjóðfánum – en alla vega þeim sem yfir 90% þeirra ríkja. Fyrir myndatökuna þá var ég búin að teikna allar myndirnar upp, var með útprentaða þjóðfána hvers lands og hvaða bakgrunn, föt, fylgihluti ég ætlaði að nota. Þegar var allt var sæmilega niðurneglt var ég nokkuð fljót að taka myndirnar.„

Kristín vitnar svo til texta sem fylgir sýningunni:

Texti um sýninguna

Óljósar myndir af barni sem aldrei mætir augum ljósmyndarans. Svipbrigðin ekki sýnileg
– framtíðin er óviss.
Sýningin Flóttabörnin okkar samanstendur af ljósmyndum sem vekja áhorfandann til
umhugsunar um málefni barna á flótta, réttindi þeirra og örlög. Kristín Ásta veltir fyrir sér
hlutskipti og réttindum þeirra fjölmörgu barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á
Íslandi.
Kristín Ásta velur að hafa ljósmyndirnar úr fókus og án þess að barnið horfi í linsu
myndavélarinnar. Enda er umfjöllunarefnið ekki réttindi og staða ákveðins barns
heldur táknræn fyrir réttindi og stöðu allra barna á flótta. Litaval endurspeglar þjóðfána
barna sem hafa hrakist á flótta frá heimalandi sínu og sótt um vernd á Íslandi.
Líkamsstaða barnanna á myndfletinum er ekki tilviljunarkennd heldur hefur Kristín Ásta
valið ólíkar stöður sem endurspegla örlög þeirra um hvort þeim hafi verið hafnað um
alþjóðlega vernd á Íslandi eða ekki.
Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru öll börn jöfn og eiga að njóta
sömu réttinda, án tillits til þess hvar þau búa, hvaða tungumál þau tala, hvað fjölskylda
þeirra gerir eða trúir á. Aldrei skal koma fram við barn af óréttlæti. Það eru skiptar
skoðanir á málefnum flóttamanna en brýnt er að standa vörð um rétt allra þeirra barna
sem hingað sækja vernd.

Kristín Ásta Kristinsdóttir lauk námi við Ljósmyndaskólanum í janúar árið 2023 og er
sýningin Flóttabörnin okkar fyrsta einkasýning hennar. Kristín Ásta er einnig með BA
gráðu í íslensku frá Háskóla Íslands.

Viðtal var við Kristínu í Fréttablaðinu á dögunum í tilefni af sýningaropnun

Sjá má nánar um starfsemina á retturbarnaaflotta.org

Myndirnar á sýningunni eru allar til sölu og allur ágóði rennur til samtakanna Réttur barna á flótta..

Varanlegt ljósmyndaprent
Portrait White 285 gsm, mattur pappír
Stærð: 30×40 cm
Verð: 13.900,-

Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna