Þann 1. júní hefst Listahátíð í Reykjavík með pompi og prakt.
Einn af fjölmörgum spennandi liðum hátíðarinnar er sýning við Austurvöll í Reykjavík en þar sýnir Hrafn Hólmfríðarson Jónsson – Krummi, verk sitt Bótaþegi.
Á vef Listahátíðar segir meðal annars þetta: Bótaþegi er áhrifaríkt og persónulegt ljósmyndaverk Hrafns Hólmfríðarsonar Jónssonar (Krumma) sem fjallar um þann veruleika að vera fatlaður og lifa við fátækt í íslensku velferðarkerfi 21. aldarinnar – að líða efnislegan skort í einu best stæða ríki heims. Í verkinu kallast hið persónulega á við hið stóra samfélagslega samhengi og úr verður upplifun sem snertir, vekur til umhugsunar og býður okkur nýja sýn. Hér er dregin upp sterk mynd af samspili markaðar og velferðarkerfis í þjóðfélagi þar sem skilaboðin eru skýr: Hamingjan er fólgin í vaxandi kaupmætti. Hver er þá staða þess sem ekki getur tekið þátt í neyslukapphlaupinu?
Þann 31. maí var Krummi í viðtali í Víðsjá á Rúv 1.
Þar segir hann frá sýningunni sem nú hefur verið opnuð við Austurvöll, af hverju myndunum er snúið að Alþingishúsinu, af hverju hann á mikið af bættum buxum, því sem er framundan hjá honum og fleiru.
Hlusta má á skemmtilegt viðtal við Krumma í Víðsjá hér og hefst á mínútu 13.20 af þættinum.