Listamaður/listakona vikunnar hefur pláss í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og nemendur hvattir til þess að sækja um og að nota tækifærið til að gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum sínum.
Verkefnavalið er fjölbreytt og nemendur sýna skilaverkefni úr áföngum námsins eða önnur verkefni sem þau eru að vinna að.
Listakona vikunnar er Karen Lind Ketilbjarnardóttir, nemandi á námsbraut í skapandi ljósmyndun 1.
Hún sýnir verk þar sem hún blandar saman myndum úr lífi kvenna frá ólíkum tímaskeiðum. Þetta er verkefni sem ekki er unnið beinlínis í tengslum við áfanga námsins í skólanum en auðvitað innblásið af náminu á marga vegu.
Karen nefnir verkið Skapari skapara míns
Hún segir:
Þetta verk er mín leið til að tengjast fortíð og lífi móður minnar betur. Báðir foreldrar mömmu eru látnir og mamma var einkabarn. Finnst mér þess vegna oft gleymast að tala um og skoða líf hennar áður en að ég kynntist henni (fæddist).
Mamma var búin að lifa meira lífi þegar ég fæðist en ég hef gert síðan að ég fæðist. Ég held að við værum vinkonur ef að við værum jafnaldra. Ég sé mikið af mér í henni og sé mikið af henni í mér.
Þetta verk er samansafn af myndum af mér, mömmu, ömmu og einni af systrum mínum. Ég fann helling af myndum sem að amma hafði tekið, bæði af sér og vinkonum sínum. Mér fannst áhugavert að skoða muninn á því hvernig hún tók myndir af sér og sínum vinkonum og bera það saman við það hvernig ég tek myndir af mér og mínum vinkonum.
Amma mín saumaði flesta kjólanna og draktirnar sem sjást á myndunum hennar sjálf sem er gaman að hafa í huga þar sem að ég og systir mín erum líka í flíkum, á sumum myndanna, sem að við höfum gert sjálfar. Það sýnir betur að við erum allar konur að lifa svipuðu lífi á vissan hátt þó líf okkar séu samt gjörólík.
Allar myndirnar eru teknar á filmu.

/sr.