Listamaður vikunnar hefur pláss í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og nemendur hvattir til þess að sækja um og að nota tækifærið til að gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum sínum.
Verkefnavalið er fjölbreytt og nemendur sýna skilaverkefni úr áföngum námsins eða önnur verkefni sem þau eru að vinna að.
Listamaður vikunnar er Drífa Huld Jóhannsdóttir, nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1. Hún sýnir verkefni sem hún vann fyrir Vinnustofuna Portrettseríur fyrr á þessari önn. Spessi var kennari áfangans.
Drífa segir:
Portrettserían sem ég sýni heitir Mæðgur-þrjár kynslóðir. Ljósmyndir hafa alltaf heillað mig og þá sérstaklega gamlar myndir. Í minni fjölskyldu er til rúmlega 100 ára portrett mynd af ungri konu (langafa-systur minni) sem er ein fyrsta ljósmynd sem ég man eftir og er serían mín er meðal annars innblásin af þessari ljósmynd.
Ég fékk þrjár persónur til að sitja fyrir hjá mér, móður, dóttur hennar og barnabarn. Ég notaði eitt ljós og, lét þær klæðast frekar látlausum og tímalausum fatnaði. Hafði bakgrunninn dökkan, innblásin af gömlu ljósmyndinni. Ég vildi hafa fókusinn á viðfanginu og ég vildi reyna að ná fram karakterunum og andrúmsloftinu og jafnvel líkindunum með mæðgunum.
Hugsunin á bakvið þessa seríu er kannski helst það sem er mér mjög hugleikið varðandi ljósmyndir og ljósmyndun; að ná ljósmyndununum úr tækjunum og á pappír. Einnig er hugsun mín að þessi myndataka sé einhverskonar skráning og verði í framtíðinni heimild um þessar þrjár konur. Mér finnst það að eiga fjölskyldumyndir í ramma og eða í albúmum dýrmætt og með þá hugsun í fyrirrúmi langaði mig líka að hafa myndirnar einfaldar og kannski svolítið tímalausar.



