Listamaður vikunnar – Elín Hanna Laxdal – Fjármál Jóns bónda.

Listamaður/listakona vikunnar hefur pláss í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og nemendur hvattir til þess að sækja um og að nota tækifærið til að gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum sínum.
Verkefnavalið er fjölbreytt og nemendur sýna skilaverkefni úr áföngum námsins eða önnur verkefni sem þau eru að vinna að.

Það er Elín Hanna Laxdal nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 sem er listamaður vikunnar Hún sýnir sjálfstætt verkefni sem hún nefnir Fjármál Jóns bónda.

Um er að ræða prent í römmum, unnin með aðferð sem nefnist Gum bicromate – 3 lög á Hahnemuhle platinum rag pappír.

Elín segir þetta um aðferðina: Gum bicromate er ein af elstu aðferðunum við að prenta ljósmyndir. Ljósnæmu efni,  kalium eða ammonium bicromate er blandað saman við arabic gum og litarefni, borið á pappír og  og síðan lýst með útfjólubláu ljósi. Upprunalega voru þetta kontakt prent, en í dag er einfalt mál að prenta negatívur á glærur og stækka þannig myndirnar. Það eru margir óvissuþættir í ferlinum og útkoman getur verið ófyrirsjáanleg. Því eru aldrei tvær myndir eins – sem er skemmtilegt en getur líka verið taugatrekkjandi.

Um myndirnar í Fjármál Jóns bónda segir Elín:

Hrútar eru virðulegar skepnur. Utan fengitímans eru þeir að öllu jafnan rólegir og félagslyndir, halda hópinn og virðast þrífast best í návist hvers annars. Haustin eru undanfari fengitímans og þá tekur hormónabúskapurinn við sér. Þeir eru þá nýkomnir af fjalli, feitir, stæltir og stæðilegir og ullin á þeim eins falleg og orðið getur. Gamlir vinir verða samkeppnisaðilar, mæla hvern annan út með tortryggni og árásargirnin gerir vart við sig. Þeir þefa af afturenda kindanna til þess að tékka á frósemisstöðunni og af hverjum öðrum til þess að kanna líka stöðuna á þeim bæjum. Þeir mynda áfram þéttan hóp, en oftar en ekki enda þögul tjáskiptin bardögum og sárum.

Fyrir nokkrum árum síðan fékk ég tækifæri til þess að fylgjast með hrútum Jóns bónda í Miðfirði að haustlagi. Hann átti 12 stykki – minna dugði ekki til þess að þjónusta 400 kinda hóp. Sumir voru komnir vel til ára sinna, orðnir „eftirlaunaþegar“ – og fengu friðsælan enda á lífsferlinum í gamla hópnum sínum. Aðrir voru ungir og æstir í að gera sig gildandi í hrútasamfélaginu. Ef vel var að gáð kom í ljós að þetta voru allt ólíkir einstaklingar. Mósi (1. mynd ) var rólegur og yfirvegaður, fylgdist af áhuga með ljósmyndaranum og horfði gjarnan beint í linsuna. Hann virtist hafa lítinn áhuga á slagsmálum og þeim mun meiri á kindunum. Um unga Móra (2. mynd) giltu önnur lögmál. Það var sem hann sæi mann ekki (kannski var hann sjónskertur), var alltaf tilbúinn í stympingar og ennið á honum var alsett sárum og örum eftir einvígin. Mynd 3 sýnir Mósa og gamla Móra  standa þétt saman og hnusa hvor af öðrum. 

Næsta vor á eftir, í byrjun apríl var litli surtur borinn, mánuði á undan ráðgerðum sauðburðartíma (mynd 4). Hann var full meðgenginn þannig að einhver hrútanna hafði greinilega fengið sér forrétt á undan hinum. Hann var stórt og kraftmikið lamb sem mamman hafnaði. Vinnukona Jóns, Floor, tók hann að sér og kom honum til hrúts. Það voru miklir kærleikar þeirra á milli.  

Síðasta myndin er af lífsreyndri  9 vetra gamalli kind sem bar 3 lömbum þetta sama vor. Þetta er nokkuð hár aldur fyrir kind, en það sama á við um ær og hrúta Jóns  – þær fá að lifa lengi sé þess kostur.

/sr.

Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna
Umhverfisstefna
Stefnur og viðbragðsáætlanir
Ársreikningar og skýrslur
Ársreikningar og skýrslur