Listamaður vikunnar hefur hluta af vegg í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og getur birt þar verk sín. Nemendur eru hvattir til þess að nota tækifærið og gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum.
Listamaður þessarar viku er Guðrún Sif Ólafsdóttir nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2. Sýnir hún verkið Kafli í Líflínu sem er verk í vinnslu.
Guðrún segir þetta um verkið:
Hvernig spilum við úr spilunum sem okkur eru gefin í lífinu? Tökumst við á við erfiðleikana sem krefjandi verkefni sem við ætlum að sigrast á, eins og einn kafla sem við þurfum að ljúka í líflínu okkar til að komast upp á næsta þrep?
Móðurástin er eitt sterkasta afl sem fyrirfinnst. En hvað gerir það hjartanu þegar þú ert móðir eina viku í senn á móti annarri viku þar sem litlu börnin þín eru fjarri þér á öðru heimili? Hvernig fyllir þú upp í tómarúmið sem skapast við að vera án þeirra? Hvernig tekst þú á við allar þær tilfinningar sem brjótast um í brjóstinu og hjartasárið yfir nýjum veruleika?
Í gegnum vegferð mína hef ég stuðst við ljósmyndun og leyft myndavélinni að leiða mig áfram til þess að greiða úr tilfinningaflækjunni í einhvers konar sjálfs listþerapíu. Ég sótti enn meira í náttúruna og fann öflin þar gefa mér aukin styrk og frelsi. Ég skil lífið betur í gegnum myndavélina og hef unun af því alla daga að kafa dýpra í miðilinn.
Það má segja að verkið Kafli í Líflínu sé verk í vinnslu, því verkið er flæðandi og hefur hvorki upphaf né endi.
Ef til vill sé ég verkið endanlega fyrir mér sem bókverk eða sem kafla í bókverki.
Instagram: @gsifolafs
Uppsetning verksins Kafli í Líflínu í rými í Ljósmyndaskólanum