Listamaður vikunnar hefur pláss í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og getur birt þar verk sín. Nemendur eru hvattir til þess að sækja um að vera Listamaður vikunnar reglulega á hverju námsári og að nota tækifærið til að gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum sínum.
Verkefnaval í Listamaður vikunnar er fjölbreytt og nemendur sýna jafnt skilaverkefni úr áföngum námsins eða ýmis önnur verkefni sem þau eru að vinna að.
Það er Gunnar Freyr Ragnarsson, nemandi á Námbraut í skapandi ljósmyndun 2 sem er listamaður vikunnar. Hann sýnir verkið Örlandslag sem hann vann í vinnustofunni Landslag/landslagsseríur nú í september.
Það var Pétur Thomsen sem vann með nemendum í þessum áfanga. Markmið áfangans var fyrst og fremst að opna nemendum sýn á möguleika þess að nota landslag sem viðfangsefni í samtímaljósmyndun.
Nemendur kynntust í gegnum vinnuna í áfanganum, ýmiskonar nálgun við landslagsljósmyndun og mismunandi hugmyndalegu inntaki. Ekki síst var það í gegnum verk fjölmargra en ólíkra samtímalistamanna sem vinna með landslag.
Í lokin skilaði hver nemandi verkefni sem byggði á inntaki áfangans.
Gunnar kýs að láta áhorfandanum eftir túlkun verksins sem samanstendur af fjórum prentum sem eru 50x70cm að stærð.
/sr.