Listamaður vikunnar – Helgi Vignir Bragason – 70/30

Listamaður vikunnar hefur hluta af vegg í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og getur birt þar verk sín. Nemendur eru hvattir til þess að nota tækifærið og gera ýmsiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum.

Listamaður vikunnar að þessu sinni er Helgi Vignir Bragason nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1.

Hann sýnir verkið 70/30 sem hann vann í vinnustofunni Samtímaljósmyndun undir handleiðslu Péturs Thomsen. 

Eftirfarandi texti fylgir verkinu 70/30

Byggingariðnaðurinn á heimsvísu hefur mikil áhrif á loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar. Á Evrópusambandssvæðinu er talið að byggingariðnaðurinn sé ábyrgur fyrir um 40% af allri orkunotkun. Þá er miðað við að meira en þriðjungur af kolefnislosun norrænu landanna komi frá húsnæði og byggingariðnaði. Á heimsvísu er það hlutfall þó öllu hærra, en talið er að hann beri ábyrgð á 39% af öllum kolefnisútblæstri.

Árið 2017 kom um 49% af úrgangi á Íslandi frá byggingariðnaðinum. Talið er að allt að 30% af þyngd byggingarefnis sem kemur á byggingarstað fari þaðan aftur í formi úrgangs. Þar sem oft getur verið erfitt að átta sig á tölum án samhengis er verkið 70/30 sett fram sem sjónræn útfærsla á þessum tölum.

Myndirnar er settar fram í settum af tveimur myndum sem saman mynda 100% af heild. Það þýðir að stærri myndirnar af byggingunum eru 70% af heildinni en myndirnar af byggingarúrganginum 30%. Með því er betur hægt að átta sig á því hve stórt hlutfall af byggingarefni er notað í bygginguna og hve mikið fer aftur af byggingasvæðinu í formi úrgangs. Til að auka enn frekar á tilfinningu áhorfandans fyrir þessum stærðum er gulur ferningur staðsettur fyrir framan verkið. Inn í honum er annar rauður ferningur og á áhorfandinn að staðsetja sig inn í honum. Rauði ferningurinn er 30% af gula ferningnum, sem er hlutfall þess sem fer af svæðinu í formi úrgangs, en guli ferningurinn hins vegar táknar heildina eða 100%. Áhorfandinn er þar með staðsettur í samtali við ljósmyndirnar sem hann horfir á fyrir framan sig.

Verkið 70/30 uppsett á sýningarstað.

Instagram Helga er @helgi.vignir

/sr.

Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna