Listamaður vikunnar hefur hluta af vegg í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og getur birt þar verk sín. Nemendur eru hvattir til þess að nota tækifærið og gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum.
Listamaður þessarar viku er Helgi Vignir Bragason en hann er nemandi á lokaönn Námsbrautar í skapandi ljósmyndun 2. Helgi sýnir verkið Lífsferilsgreining.
Hann segir þetta um verkið:
Lífsferilsgreining
Verkið Lífsferilsgreining er rannsóknarmiðað ljósmyndaverk í vinnslu sem sýnir lífsferil mannlausra mannvirkja, aðallega á upphafsstigum þegar þau eru að myndast og á loka augnablikum þeirra. Verkið fjallar um það hvernig við byggjum, efnisnotkun, sóun, rýmisnýtingu og umhverfisáhrif. Verkið er sprottið úr reynslu minni og þekkingu á byggingariðnaðinum líkt og mörg önnur verk mín í náminu í Ljósmyndaskólanum síðastliðin ár. Titillinn Lífsferilsgreining vísar í aðferðafræði sem notuð er í byggingariðnaðinum til að meta staðbundin og hnattræn umhverfisáhrif vöru eða þjónustu yfir líftímann eða „frá vöggu til grafar“. Byggingariðnaðurinn hefur mikil áhrif á loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar. Á Evrópusambandssvæðinu er talið að byggingariðnaðurinn sé ábyrgur fyrir um 40% af allri orkunotkun og um 39% af öllum kolefnisútblæstri. Það skiptir því máli hvernig við byggjum og hvernig við varðveitum og þróum þegar byggð mannvirki.
/sr.