Listamaður vikunnar hefur pláss í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og nemendur hvattir til þess að sækja um og að nota tækifærið til að gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum sínum.
Verkefnavalið er fjölbreytt og nemendur sýna skilaverkefni úr áföngum námsins eða önnur verkefni sem þau eru að vinna að.
Það er Natalía Kristjánsdóttir, nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2 sem er listamaður þessarar viku. Hún sýnir afrakstur vinnu sinnar í vinnustofunni Landslag.
Það var Pétur Thomsen sem leiddi nemendur í vinnunni í þessum áfanga og markmiðið var fyrst og fremst að opna nemendum sýn á möguleika þess að nota landslag sem viðfangsefni í samtímaljósmyndun.
Natalía segir:
Verkið Að lýsa upp myrkrið er sprottið af hafinu. Hvaða merkingu hefur það fyrir mér og hvað gerist þegar það er myndað í niðamyrkri? Get ég sýnt fram tilfinninguna sem ég finn þegar ég horfi á hafið í myrkrinu; hið óþekkta og leyndardómsfulla.
/sr.