Listamaður/listakona vikunnar hefur pláss í skólahúsnæðinu til umráða í eina viku og nemendur hvattir til þess að sækja um og að nota tækifærið til að gera ýmiskonar tilraunir með útfærslu og framsetningu á verkunum sínum.
Verkefnavalið er fjölbreytt og nemendur sýna skilaverkefni úr áföngum námsins eða önnur verkefni sem þau eru að vinna að.
Listamaður vikunnar er Rannveig Björk Gylfadóttir – Rannsý Hún er nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1. Benda má á að einkasýning hennar á Vökudögum á Akranesi stendur til 2. nóvember.
Hafið í dropanum- „You are not a drop in the ocean, you are the entire ocean in a drop.“ – Rumi
Við höldum oft að við séum bara dropi í hafið og að okkar rödd, framlag og ljós skipti engu, en við gleymum því að hafið sjálft er líka í okkur, sem lýsir okkur upp og getur tendrað ljós hjá öðrum (enda erum við líka líffræðilega að meðaltali 60% úr vatni 😉).
Með þessari trú, höldum og blekkjum við okkur stundum á því að við séum aðskilin, séum við og hinir; að öðrum litarhætti, af öðru kyni eða kynsegin, í öðrum landshluta, löndum, menningarheimum. Við aðskiljum okkur líka frá náttúrunni, að hún sé ekki hluti af okkur og okkar velsæld. Blekkingunni fylgja of oft fordómar, vanvirðing, ósætti, ofbeldi, stríð og svo ótal margt fleira miður gott. Við ættum að hugsa í staðinn meira um það sem sameinar en það sem er ólíkt eða sundrar, ekki síst til þess að efla góðvild, samkennd fyrir okkur sjálfum, hvort öðru og fyrir náttúrunni. Það myndi vernda náttúruna betur, auka sátt okkar og virðingu hvert við annað og efla frið í heiminum.
Ég geri langflest verkin mín í ákveðnu flæði og gleði þar sem ég kalla hreyfihugleiðslu, renn saman við stund og stað og náttúruna sem gefur mér mjög mikið og sem ég vona að skili sé áfram. Verkin eru gerð með myndavélinni sjálfri, en ég nota oft ICM (intentional camera movement) og ME (multiple exposure) tækni þegar ég mynda og vinn svo mest myndirnar mínar í vinnsluforritinu Lightroom og stundum í Photoshop.
Titilverkið var gert í áfanga í myndvinnsluforritinu, „Photoshop“ í skólanum og er samsett úr 6 ólíkum hlutum. Hin verkin þrjú voru gerð á vordögum, á Ströndum, í eyðifjöru með ólgandi sjó, rekavið og fuglalífi. Þetta var góður endir á heimleiðinni eftir mjög gefandi og lærdómsríka daga með samnemanda mínum Ósk Ebenesersdóttur, við að mynda mjög fallega sýningu á vegum „The Factory,“ „Himnadansarar// Sky Dancers,“ í samstarfi við Ljósmyndaskólann, í gömlu Síldarverksmiðjunni í Djúpuvík.
Öll þessi verk eru hluti af fyrstu einkasýningu minni á Vökudögum á Akranesi, sem stendur til 2. nóvember n.k. https://facebook.com/events/s/hafi%C3%B0-i-dropanum/2291867591254746/
Verið velkomin.



