Sýning á útskriftarverkum þeirra nemenda sem útskrifast frá Ljósmyndaskólnaum í desember 2024, stendur í Ljósmyndasafni Reykjavíkur til 5. janúar 2025.
Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.
María Ármanns er ein af útskriftarnemendum Ljósmyndaskólans að þessu sinni.
Útskriftarverkefni hennar heitir: 74 klukkustundir; Hugurinn reykspólar hring eftir hring en tíminn stendur í stað.
Eftirfarandi texti fylgir verki:
13. október læsti ég mig inni í stúdíóinu að Hólmaslóð 6 í 10 klukkutíma. Ég hafði með mér 10 filmur, tvær myndavélar; Mamiya RZ 67 og Polaroid Now+, ritföng og eitthvað að narta í. Ég setti mér reglur: Á hverjum klukkutíma skyldi ég skjóta eina filmu, á korters fresti skyldi ég taka eina polaroid mynd. Ég var ekki með neina afþreyingu aðra en að mynda, skrifa niður hugrenningar mínar og bíða eftir næsta klukkutíma. Ég vissi ekki hvað myndi gerast þessa tíu klukkutíma. Ég elti innsæið. Afraksturinn voru 100 negatívur, 40 polaroid prent og 25 textabrot.
5. nóvember læsti ég mig inni í myrkraherberginu í 24 klukkutíma. Ég prentaði 140 myrkraherbergisprent í stærð 120 x 95 mm.
7. nóvember læsti ég mig inni í myrkraherberginu í 20 klukkutíma. Ég prentaði 64 myrkraherbergisprent í stærðum 130 x 110 mm og 165 x 130 mm
9. nóvember læsti ég mig inni í myrkraherberginu í 20 klukkutíma. Ég prentaði 72 myrkraherbergisprent í stærðum 95 x 75 mm og 260 x 215 mm.
Afraksturinn var 64 klukkutímar, innilokuð í myrkraherbergi og 276 myrkraherbergisprent.
Verkið 74 klukkustundir; Hugurinn reykspólar hring eftir hring en tíminn stendur í stað,
leikur á mörkum reglu og tilviljunar. Í 74 tíma innilokun lét ég af stjórn, þrátt fyrir að setja mér ramma, leyfði innsæinu að ráða og sleppti tökum á þráhyggjunni að skapa hið fullkomna verk. Ljósmyndin varð hliðarafurð, en leikgleðin og ferlið sjálft tóku miðjuna.
/sr.