NSL1 – Önn 1

720 námsstundir. Fyrirlestrar/málstofa, sýnikennsla, einkatímar, hóptímar og sjálfstæð verkefnavinna undir handleiðslu. 387 stundir. Eigin vinna 333 stundir.

Helstu námsþættir og áherslur

Farið er í þætti er varða myndavélina sem verkfæri ljósmyndarans, s.s. ljósop og hraða og önnur tæknileg atriði varðandi myndatökur. Kennd eru grundvallaratriði mynduppbyggingar og notkun ljóss við myndsköpun. Nemendur læra að vinna í myndveri (stúdíói) og meðhöndlun tilheyrandi tækjabúnaðar. Þeir læra einnig framköllun á svarthvítum filmum, stækkun og prentun af filmum. Nemendur læra grunndvallarþætti stafrænnar ljósmyndunar, flokkun og skipulag myndasafns síns og helstu þætti stafrænnar myndvinnslu. Þeir læra að vinna myndir fyrir prentun og fá kennslu í því að prenta á prentara skólans. Nemendur eru kynntir fyrir grunnhugtökum í hugmyndavinnu og hagnýtum atriðum varðandi ritun á texta, heimildanotkun og hvernig beita skal heimildatilvísunum. Farið er í sögu ljósmyndunar frá upphafi og fram yfir miðja 20. öld, í íslensku og alþjóðlegu samhengi, með tilliti til tengsla við hugmyndastrauma, liststefnur, tækniþróun og samfélagshræringar.

Í áföngunum öllum er áhersla á að nemendur leysi verkefni, kynni þau og setji í samhengi við kenningar, hugmyndir eða aðferðir. Nemendur eru hvattir til að þróa með sér þekkingu á mismunandi aðferðum við myndbyggingu og úrvinnslu verkefna og til þess að gera tilraunir með persónulega beitingu ljósmyndamiðilsins. Á önninni taka nemendur þátt í tveimur vinnustofum þar sem þeir vinna undir handleiðslu listafólks í afmarkaðan tíma.

Markmið í lok annar:

  • Að nemendur hafi lært að nota ljósmyndavélina og nýta eiginleika hennar.
  • Að nemendur hafi öðlast þekkingu og færni í grunnþáttum ljósmyndunar og geti beitt þeim við eigin vinnu og sköpun.
  • Að nemendur hafi náð tökum á vinnu í myndveri og umgengni við tæki og tól.
  • Að nemendur hafi lært klassíska/hefðbundna aðferð við framköllun á svarthvítum filmum og náð valdi á því að stækka ljósmyndir á pappír.
  • Að nemendur kunni skil á grunnþáttum stafrænnar myndvinnslu, flokkun og geymslu stafrænna ljósmynda, hafi þekkingu til að vinna myndir fyrir prentun og kunni á prentara skólans.
  • Að nemendur hafi fengið æfingu í að lesa ljós og átti sig á því hvernig unnt er að nýta það til mismunandi mynduppbyggingar og til að ná fram áhrifum í myndsköpun.
  • Að nemendur hafi náð tökum á aðferðum við hugmyndavinnu, hafi þjálfast í notkun slíkra vinnubragða og geti nýtt þekkinguna við undirbúning og útfærslu eigin verkefna.
  • Að nemendur hafi náð tökum á því að skrifa stutta ritgerð, að afla sér heimilda og að nota heimildatilvísanir.
  • Að nemendur kunni skil á helstu straumum og stefnum í ljósmyndasögu 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. og tengslum ljósmyndunar við listheim og samfélagsþróun þess tímabils.
  • Að nemendur hafi hlotið innsýn í skapandi möguleika ljósmyndunar.
No data was found
Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna