NSL2 – Önn 1

720 námsstundir. Fyrirlestrar, sýnikennsla, vettvangsferðir, vinnustofur, hóptímar, einkatímar og sjálfstæð vinna undir handleiðslu, 368 stundir. Eigin vinna 352 stundir.

Helstu námsþættir og áherslur

Á önninni eru nemendur eindregið hvattir til að leita svara við spurningunni „Hvers konar ljósmyndari vil ég verða?“ og fá þeir margháttaða aðstoð við þá greiningu. Þeir eru hvattir til að nýta námsverkefnin til þess að gera tilraunir með miðilinn og að nálgast hvert viðfangsefni úr mismunandi áttum. Einnig er áhersla á að kynna þeim ýmsa hagnýta þætti er varða það að lifa og starfa í lisheiminum.

Nemendur öðlast frekari þekkingu á hinu margþætta eðli ljósmyndarinnar, þjálfa færni sína í því að greina ljósmyndir og í að koma niðurstöðum sínum á framfæri. Í vinnustofum kynnast nemendur mismunandi nálgun á ljósmyndun sem listform undir handleiðslu gestakennara sem allir eru starfandi ljósmyndarar/listamenn. Þar eru tekin fyrir fjölþætt verkefni sem tengjast listsköpun og endurspegla fjölbreytta birtingarmynd ljósmyndarinnar í samtímalist.

Nemendur hljóta þjálfun í því að nota samfélagsmiðla til kynningar á sér og verkum sínum og æfingu í að velja og útbúa efni til birtingar á slíkum miðlum.

Fjallað er um myndlist 20. og 21. aldar, tilkomu framúrstefnulistar og þróun samtímalistar með áherslu á tengingu við íslenska myndlist og mikilvægi nýrra miðla í samtímalist. Einnig fá nemendur aðstoð varðandi það að ná tökum á persónulegum stíl við úrlausn verkefna í stafrænni myndvinnslu og prentun.

Markmiðið í lok annar

  • Að nemendur hafi gott vald á helstu þáttum stafræna myrkraherbergisins, geti sýnt persónuleg stílbrögð og unnið sjálfstætt að úrlausn verkefna.
  • Að nemendur hafi kynnst ólíkri nálgun á ljósmyndamiðilinn, fjölbreyttri notkun hans og möguleikum til sköpunar.
  • Að nemendur hafi allgóða yfirsýn yfir þróun myndlistar á 20. öld, stöðu samtímamyndlistar og sé þar ljóst mikilvægt hlutverk nýrra miðla.
  • Að nemendur hafi hlotið þjálfun í rannsóknarvinnu og í að setja fram hugmyndir sínar með sjónrænum hætti og rökstyðja þær.
  • Að nemendur hafi öðlast færni í að greina ljósmyndir og ljósmyndaverk, og hafi hlotið þjálfun í að koma niðurstöðum sínum á framfæri.
  • Að nemendum hafi aukist sjálfstæði í vinnubrögðum og séu byrjaðir að þróa með sér persónulega nálgun á miðilinn.
  • Að nemendur hafi fengið nokkra innsýn í virkni listheimsins og hlotið þjálfun í að sækja um styrki og sýningar.
  • Að nemendur hafi rannsakað eigin ætlanir og markmið, skoðað mismunandi tegundir samfélagsmiðla og fengið allgóða yfirsýn yfir möguleikana sem felast í notkun þeirra til kynningar.
  • Að nemendur hafi kynnst ólíkum listamönnum, mismunandi hugmyndum, vinnubrögðum og aðferðum og aukið við skilning sinn á fjölþættri notkun ljósmyndamiðilsins til tjáningar og sköpunar.
  • Að nemendur hafi fengið enn frekari innsýn í að ljósmyndamiðillinn er notaður á ólíka vegu í samtímamyndlist og að mismunandi fagurfræðileg og hugmyndafræðileg gildi geta legið að baki notkun ljósmyndar sem listmiðils.
Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Umsóknarfrestur rennur út 5. júlí