NSL2 – Önn 2

720 námsstundir. Fyrirlestrar/málstofa, vettvangsferðir, sjálfstæð vinna undir handleiðslu 341 stundir. Eigin verkefnavinna 379 stundir.

Helstu námsþættir og áherslur

Megin áhersla námsins á þessari önn er á að nemendur öðlist enn frekari leikni í að beita ljósmyndamiðlinum á fjölþættan hátt til skapandi vinnu. Undir lok annar er gert ráð fyrir að þeir hafi náð að skýra markmið sín með notkun miðilsins og séu komnir áleiðis í því að þróa með sér persónulega framsetningu á myndverkum af ólíku tagi. Einnig þurfa þeir að geta sett fram sannfærandi verkáætlun um hvernig þeir hyggjast ná markmiðum sínum.

Í hugmyndavinnu eru nemendum kynntar aðferðir til þess að sprengja út viðteknar hugmyndir um ljósmyndina og ljósmyndun og til að kanna í framhaldinu möguleikana handan þeirra marka. Margþætt eðli ljósmyndarinnar og ólíkar birtingarmyndir hennar eru skoðaðar og þau fagurfræðilegu og hugmyndafræðilegu gildi sem hvorutveggja móta miðilinn og taka breytingum vegna hans. Nemendur fá æfingu í að greina ljósmyndir og ljósmyndaverk og setja í margvíslegt samhengi.

Nemendur fá aðstoð við að skipuleggja vinnubók (portfolio) sína og í að meta hvað upp á vantar af efni til að þeir nái markmiðum sínum. Við annarlok leggja þeir vinnubók sína fram og kynna hana.

Nemendur fá einnig leiðbeiningu um það hvernig best er að standa að kynningu á verkum sínum á samfélagsmiðlum og læra ýmis hagnýt atriði varðandi stofnun, markaðssetningu og rekstur fyrirtækis í skapandi atvinnugreinum, meðal annars bókhald og gerð markaðsáætlana. Eins er farið yfir önnur hagnýt atriði varðandi það að lifa af í listheiminum, s.s. gerð ferilskrár, sölu verka, höfundarrétt og það að sækja um styrki.

Nemendur starfa áfram með listamönnum í vinnustofum,þar sem tekin eru fyrir verkefni er tengjast listsköpun. Kynnast þeir þar meðal annars helstu meginstraumum í listrænni samtímaljósmyndun í íslensku og erlendu samhengi. Í lok annar taka nemendur þátt í ljósmyndarýni. Þar leggja nemendur vinnu sína á ýmsum stigum fyrir rýninefnd og útskýra hugmyndir sínar og ætlanir. Rýninefndin gefur ábendingar um úrlausnir, kemur með hugmyndir og gefur umsögn á grundvelli kynningarinnar og þeirra gagna sem nemandinn hefur lagt fram máli sínu til stuðnings.

Fyrir lok 2. annar þarf nemandinn að leggja fram drög að vinnuferli sínu á 3. önn en markmiðið er að hver nemandi fái leiðbeinanda með lokaverkefni 3. annar, fyrir lok skólaársins. Fyrir lok annarinnar þarf nemandi einnig að leggja fram stutt drög að væntanlegum efnistökum fræðilegrar lokaritgerðar 3. annar.

Markmið í lok annar

  • Að nemendur hafi öðlast leikni í að beita ljósmyndamiðlinum á fjölþættan hátt til skapandi vinnu. Hafi náð að skýra markmið sín með notkun miðilsins og séu komnir áleiðis í því að þróa með sér persónulega framsetningu á myndverkum af ólíku tagi.
  • Að nemendur þekki helstu áherslur og aðferðir samtímaljósmyndunar, hvað varðar nálgun, úrvinnslu og tengsl við aðra listmiðla. Þekki einnig helstu meginstrauma í listrænni samtímaljósmyndun í íslensku og erlendu samhengi.
  • Að nemendur hafi öðlast færni í að greina ljósmyndir út frá félagslegu og menningarlegu samhengi, og hafi hlotið nokkra þjálfun í að koma niðurstöðum sínum á framfæri.
  • Að nemandi hafi lokið gerð vinnubókar (portfolio).
  • Að nemendur hafi fengið innsýn í hagnýta þætti er varða rekstur í skapandi greinum, s.s. bókhald og gerð markaðsáætlunar og þjálfun í þeim þáttum.
  • Að nemendur hafi hlotið þjálfun í hagnýtum þáttum þess að lifa af í listheiminum, s.s. gerð ferilskrár, sölu verka, umsóknarferli varðandi styrki og annað það er gagnast getur starfandi listamanni.
  • Að þeir hafi fengið þjálfun í að velja, vinna og kynna verk sín með ólíkum hætti í mismunandi samfélagsmiðlum. Að hver nemandi sé langt kominn með að móta það form kynningar sem hentar eigin áherslum.
  • Að nemendur hafi í lok annar lagt fram drög að lokaverkefni 3. annar og geti sett fram sannfærandi verkáætlun um hvernig þeir hyggjast ná markmiðum sínum.
  • Að nemandi hafi lagt fram stutt ágrip af áætluðum efnistökum ritgerðarverkefnis sem skilað er á 3. önn.
Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Umsóknarfrestur rennur út 5. júlí