Natasha Harris – Military Brat

Natasha Harris er í útskriftarhópi Ljósmyndaskólans þetta árið.

Á samsýningu útskriftarnemenda sýnir hún verkið Military Brat, en þar vinnur hún með sögu fjölskyldu sinnar og ýmis gögn sem tengjast henni og örlögum fjölskyldumeðlima.

Eftirfarandi texti fylgir verki:

Military Brat

„Military brat“ eða herkrakki er manneskja sem ólst upp í hernaðarumhverfi. Í þessu verkefni, Military Brat, birtist tímalína fjölskyldu minnar í hernum. Markmiðið er að setja fram rannsókn mína á eigin fjölskyldusögu allt frá því í síðari heimsstyrjöldinni á fimmta áratug 20. aldarinnar og fram á okkar dag en nú bý ég í landi þar sem ekki eru önnur hernaðarleg umsvif en yfirgefin flugherstöð í Keflavík.

Tengsl fjölskyldu minnar við herinn má rekja í það minnsta aftur til síðari heimsstyrjaldarinnar þegar langafi minn gekk til liðs við bandaríska herinn og var í fimmtándu riddaraliðssveitinni með bækistöðvar í Camp Funston í Kansas. Amma mín var kennari í Kaiserslautern-flugherstöðinni og Ramstein-herstöðinni þar sem faðir minn ólst upp. Móðir mín réði sig sem kennara í Ramstein þar sem ég fæddist og ólst upp. Þar var ég alla mína skólagöngu og bjó í litlum, þýskum bæ í tuttugu mínútna fjarlægð frá herstöðinni. Einn atburð úr bernskunni man ég eins og hann hafi gerst í gær. Ég var að heimsækja ættingja mína í Minnesota og frænkur mínar og frændur fóru út að hitta vini sína. Þau höfðu átt þessa sömu vini síðan í leikskóla og allt í einu rann upp fyrir mér ljós. Ég átti enga vini frá því æviskeiði. Sú sem komst næst því að vera æskuvinur var manneskja sem ég hitti þegar ég var tólf ára gömul. Ég fann til einmanaleika og fannst ég hafa misst af því að mynda tengsl sem gætu enst ævina á enda. Þá og þar ákvað ég að hernaðarhefð fjölskyldunnar lyki með mér. Þetta verkefni er mín leið til þess að fara í gegnum persónulega sögu mína og tilfinningar sem henni tengjast. Ég veit aldrei hvernig ég á að svara þegar fólk spyr mig hvaðan ég komi. Ég fer iðulega bara eftir því sem stendur á ökuskírteininu mínu. Þetta er mín leið til þess að útskýra það án þess að setjast niður og segja ævisögu mína.

/sr.

Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna