Hjartagull
Í verkinu Hjartagull er ljósmyndarinn áhorfandi en einnig þátttakandi í hlutverki hjartagulls ömmu sinnar. Ragnheiður Sóllilja varpar fram augnablikum úr fortíð á sama tíma og hún rýnir í samtímann. Söknuður fylgir hraðri framvindu lífsins og minningar fölna, engin leið er til að stöðva tímann nema staldra við íminningunum.
Ragnheiður Sóllilja vinnur með gamlar ljósmyndir frá áttunda áratugnum, sem hún fann í fórum afa síns og hann tók stuttu eftir að hann giftist ömmu hennar. Afi hennar er þar leiddur áfram af forvitni fyrir nærumhverfisínu og myndirnar endurspegla hversdagsleikann, samverustundir með fjölskyldunni og daglegt líf í vinnunni.
Kynjahlutverk fortíðar eru skýr á eldri myndunum en í þeim býr einnig kærleikur og fegurð sem Ragnheiður Sóllilja leitast sjálf við að fanga í nýlegri ljósmyndum af ömmu sinni sem hún svo fléttar saman við ljósmyndir afa síns á ljóðrænan hátt. Með því að ljósmynda ömmu sína og hennar hversdagsleika er eins og hún taki við hlutverki afa síns sem áhorfandi, feti í hans fótspor, og þar með aftur til fortíðar.
Verkið Hjartagull er einlæg og persónuleg túlkun ljósmyndarans, leið til að varpa ljósi á augnablik lífsins, með það að markmiði að varðveita stundina og skapa tengingu milli fortíðar og nútíðar.