Hluti af námi nemenda á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 við Ljósmyndaskólann er áfanginn Að lesa í og skapa ljós. Þar er unnið með eitt meginverkfæri ljósmyndarans ljósið. Nemendur læra þar að lesa í ljós og að beita því við myndatökur, að nota mismunandi ljósgjafa og blanda saman ólíkum ljósgjöfum.
Áfanginn er í fjórum hlutum og er kenndur af tveimur kennurum auk gestafyrirlesara.
Það er í síðasta hluta áfangans sem nemendur vinna undir handleiðslu ljósmyndara að þessu samstarfsverkefni með fataverkefni Rauða krossins.
Að þessu sinni var Yael BC. leiðbeinandi nemenda í þessum hluta áfangans.
Verkefnið er hópaverkefni og felst í því að nota fatnað frá verslunum Rauða krossins í myndatökum, búa til áhugaverðar myndir sem vekja athygli á verkefninu og inntaki þess. Myndirnar eru í framhaldi notaðar á vegum Rauða krossins til að vekja athygli á verkefninu.
Með fataverkefni Rauða krossins er verið að gefa fötum nýtt líf, endurnýta, sporna við sóun og með því að stemma stigu við hnattrænni hlýnun.
Öll innkoma af sölu á notuðum fatnaði í verslunum Rauða krossins fer til góðgerðarmála eða hjálparstarfs á vegum Rauða krossins.
Kolbrún Hulda Geirsdóttir, Kotryna Rukstelyte og Ástrós Lind Halldórudóttir unnu verkefni sem þær kalla Dúkkulísa.
Þær segja:
Hluti af náminu við Ljósmyndaskólann er samstarfsverkefni við Rauða krossinn, þar sem unnið er með fatnað úr verslunum Rauða krossins og listræna nálgun á ljósmyndun. Markmið verkefnisins er að skapa áhrifaríkar myndir sem varpa ljósi á fjölbreytileika og möguleika endurnýtingu fatnaðar í listrænum tilgangi, en leiðin að því var ekki bein og auðveld.
Í þessu verkefni tókum við höndum saman sem hópur og unnum með fyrirsætu og fatnað frá Rauða krossinum til að birta okkar eigin listrænu sýn. Upphaflega stefndum við á að skapa einstakt og áhrifaríkt myndefni, en leiðin að því var ekki bein og auðveld.
Við hófum vinnuna með allt aðra hugmynd og sýn og þó svo að við værum spenntar fyrir þeirri nálgun, varð hún fljótt of flókin og niðurstaðan ekki sú sem við sáum fyrir okkur. Ólík sýn okkar gerði það að verkum að listræna stefnan varð óljós og ómarkviss. Við áttum erfitt með að samræma hugmyndir okkar og móta heildstæða nálgun. Fljótlega varð okkur ljóst að við þyrftum að staldra við og endurskoða hvernig við unnum saman.
Við tókum því ákvörðun um að leggja upphaflegu hugmyndina til hliðar og byrja upp á nýtt með nýtt „moodboard“. Í þetta sinn unnum við með fyrirsætunni Olgu og mótuðum saman skýrari og samstilltari stefnu fyrir verkefnið. Við tókum okkur tíma til að hlusta hver á aðra, vinna saman að hugmyndavinnunni og tryggja að allar væru á sömu blaðsíðu áður en við héldum í tökur.
Í fyrstu stefndum við á dökka og dramatíska nálgun þar sem Olgu var ætlað að túlka persónu með óstöðugt yfirbragð – innblásið af kvikmyndinni Pearl, þar sem sakleysi og geðveiki blandast saman á óhugnanlegan hátt. Við vildum leika okkur með þessar andstæður: sakleysislegt, dúkkulíkt yfirbragð á móti undirliggjandi óstöðugleika. En þegar við hófum tökur með Olgu tók verkefnið nýja stefnu. Þar sem hún hefur bakgrunn í dansi og leiklist reyndist einstaklega auðvelt að leikstýra henni, og orkustigið breytist smám saman í léttari, leikandi stemningu. Við enduðum á að fanga hreyfingu og spuna þar sem Olga minnti á strengjabrúðu – skemmtileg og óhefðbundin nálgun sem smell passaði við fatnaðinn og andrúmsloft verkefnisins.
Það sem kom okkur hvað mest á óvart í ferlinu var hversu samræmdar myndirnar urðu í lokin. Þrátt fyrir að við höfum hver okkar ólíkan ljósmyndastíl, runnu myndirnar saman í eina sterka heild, eins og þær hefðu allar verið teknar af einum ljósmyndara. Þessi samhljómur sýndi okkur hversu vel okkur tókst að sameina hugmyndir okkar og samræma listræna sýnina í lokin.
Markmið okkar með verkefninu var að höfða til leikara, kvikmyndagerðafólks og annarra skapandi einstaklinga í listheiminum. Við viljum sýna fram á að fatnaður úr verslunum Rauða krossins er ekki eingöngu ætlaður daglegum klæðnaði heldur býður hann upp á óteljandi möguleika í búningahönnun, svið stíliseringu og öðrum listrænum verkefnum. Second Hand föt bera með sér sögu, karakter og fjölbreytileika sem getur bætt dýpt og áreiðanleika í hvers kyns skapandi vinnu. Með þessu verkefni vonumst við til að hvetja fleiri listamenn til að skoða Rauða krossinn sem dýrmæta auðlind fyrir næstu sköpunarverk sín.






