Hluti af námi nemenda á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 við Ljósmyndaskólann er áfanginn Að lesa í og skapa ljós. Þar er unnið með eitt meginverkfæri ljósmyndarans ljósið. Nemendur læra þar að lesa í ljós og að beita því við myndatökur, að nota mismunandi ljósgjafa og blanda saman ólíkum ljósgjöfum.
Áfanginn er í fjórum hlutum og er kenndur af tveimur kennurum auk gestafyrirlesara.
Það er í síðasta hluta áfangans sem nemendur vinna undir handleiðslu ljósmyndara að þessu samstarfsverkefni með fataverkefni Rauða krossins.
Að þessu sinni var Yael BC. leiðbeinandi nemenda í þessum hluta áfangans.
Verkefnið er hópaverkefni og felst í því að nota fatnað frá verslunum Rauða krossins í myndatökum, búa til áhugaverðar myndir sem vekja athygli á verkefninu og inntaki þess. Myndirnar eru í framhaldi notaðar á vegum Rauða krossins til að vekja athygli á verkefninu.
Með fataverkefni Rauða krossins er verið að gefa fötum nýtt líf, endurnýta, sporna við sóun og með því að stemma stigu við hnattrænni hlýnun.
Öll innkoma af sölu á notuðum fatnaði í verslunum Rauða krossins fer til góðgerðarmála eða hjálparstarfs á vegum Rauða krossins.
Kjartan Hreinsson, Ósk Ebenesersdóttir, Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir og Telma Geirsdóttir unnu verkefni sem þau nefna Gæðavottun.
Þau segja:
Verkefnið var unnið í samstarfi við Rauða krossinn og byggðist á því að velja klassískan og vandaðan fatnað sem gæti vakið viðbrögð á borð við: „Ó, er þetta úr Rauða krossinum?“
Markmiðið var að veita innblástur til að endurskoða gildi tísku – sjá fegurðina og möguleikana í notuðum flíkum, og átta sig á eigin áhrifum í átt að sjálfbærari framtíð.
Við lögðum áherslu á háklassa stíl með jarðtónum, vönduðum efnum, mynstrum og lagskiptum áferðum sem gáfu flíkunum dýpt og karakter. Myndatakan fór fram í stúdíói þar sem við mótuðum framsetningu af nákvæmni.
Kynlaus nálgun var okkur mikilvæg – föt sem ganga á milli einstaklinga og brjóta upp hefðbundin kynjamörk.
Að lokum viljum við minna á mikilvægi þess að sýna fatnaði umhyggju. Meðvitund og meðhöndlun eykur líftíma flíka – og það er einmitt það sem Rauði krossinn stendur fyrir.
Sjálfbær tíska byrjar á því að sjá verðmæti í því sem þegar er til.








/sr.