Hluti af námi nemenda á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 við Ljósmyndaskólann er áfanginn Að lesa í og skapa ljós. Þar er unnið með eitt meginverkfæri ljósmyndarans ljósið. Nemendur læra þar að lesa í ljós og að beita því við myndatökur, að nota mismunandi ljósgjafa og blanda saman ólíkum ljósgjöfum.
Áfanginn er í fjórum hlutum og er kenndur af tveimur kennurum auk gestafyrirlesara.
Það er í síðasta hluta áfangans sem nemendur vinna undir handleiðslu ljósmyndara að þessu samstarfsverkefni með fataverkefni Rauða krossins.
Að þessu sinni var Yael BC. leiðbeinandi nemenda í þessum hluta áfangans.
Verkefnið er hópaverkefni og felst í því að nota fatnað frá verslunum Rauða krossins í myndatökum, búa til áhugaverðar myndir sem vekja athygli á verkefninu og inntaki þess. Myndirnar eru í framhaldi notaðar á vegum Rauða krossins til að vekja athygli á verkefninu.
Með fataverkefni Rauða krossins er verið að gefa fötum nýtt líf, endurnýta, sporna við sóun og með því að stemma stigu við hnattrænni hlýnun.
Öll innkoma af sölu á notuðum fatnaði í verslunum Rauða krossins fer til góðgerðarmála eða hjálparstarfs á vegum Rauða krossins.
Brynja Bærings Sindradóttir, Lilja Birna Arnórsdóttir og Karen Ketils unnu verkefni sem þær nefna
„Náttúran skiptir máli – endurnýtum.“
Verkefnið er unnið út frá hugsunum um mikilvægi þess að tengjast náttúrunni á ný, fjarlægast neysluhyggjuna og kapítalismann og finna ró. Að minnka pressuna á að kaupa ný föt, að hvetja til þess að velja vel og að versla í hófi.
Við völdum að mynda í náttúrunni og að ýta þar með undir tengingu við það sem verið er að vernda með því hvetja til þess að draga úr neyslu og að finna jarðtengingu.
Við fórum í vettfangsferð til að finna tökustað og enduðum með að velja staðsetningu við Kleifarvatn sem gaf okkur tækifæri á að taka myndir í fjölbreyttri náttúru.
Á tökudag mættum við snemma á staðinn á fallegum en köldum vordegi. Tökur gengu mjög vel og allir tóku þátt.