Hluti af námi nemenda á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 við Ljósmyndaskólann er áfanginn Að lesa í og skapa ljós. Þar er unnið með eitt meginverkfæri ljósmyndarans ljósið. Nemendur læra þar að lesa í ljós og að beita því við myndatökur, að nota mismunandi ljósgjafa og blanda saman ólíkum ljósgjöfum.
Áfanginn er í fjórum hlutum og er kenndur af tveimur kennurum auk gestafyrirlesara.
Það er í síðasta hluta áfangans sem nemendur vinna undir handleiðslu ljósmyndara að þessu samstarfsverkefni með fataverkefni Rauða krossins. Að þessu sinni var Yael BC. leiðbeinandi nemenda í þessum hluta áfangans.
Verkefnið er hópaverkefni og felst í því að nota fatnað frá verslunum Rauða krossins í myndatökum, búa til áhugaverðar myndir sem vekja athygli á verkefninu og inntaki þess. Myndirnar eru í framhaldi notaðar á vegum Rauða krossins til að vekja athygli á verkefninu.
Með fataverkefni Rauða krossins er verið að gefa fötum nýtt líf, endurnýta, sporna við sóun og með því að stemma stigu við hnattrænni hlýnun.
Öll innkoma af sölu á notuðum fatnaði í verslunum Rauða krossins fer til góðgerðarmála eða hjálparstarfs á vegum Rauða krossins.
Aron Gestsson, Natalía Kristjáns og Kristín Gjöverå unnu verkefnið sem nefnist Það á að vera skemmtilegt að klæða sig upp.
Að fara í fataskápinn, velja föt og klæða sig er eitthvað sem við gerum flest á hverjum degi.
Af hverju ekki að gera það spennandi? Við vildum sýna að tímalaus föt sem mögulega eru hluti af fataskápnum þínum, geta falið í sér þá þætti sem einkenna tískuflíkur.
Markmið okkar er að sýna að fatnaður frá Rauða krossinum getur litið út fyrir að vera hágæða tískuvara, á viðráðanlegu verði, svo ekki sé minnst á að það að versla hjá Rauða krossinum styður sjálfbærni. Tilvísun okkar í dúkkulísur er hvatning til þess að leika sér með þann lykilfataskáp sem þú átt; að blanda saman fötum og að búa til mismunandi samsetningar af klæðnaði, alveg eins og við gerðum sem krakkar með dúkkulísunar okkar.
Í undirbúningi fyrir verkefnið gerðum við „moodboard“, ákváðum litasamsetningu og þróuðum hugmyndina. Til þess að búa til dúkkurnar, tókum við grunnmynd af módelunum okkar og svo myndir af þeim í þeim fatnaði sem við höfðum valið. Við völdum síðan samsetningar, prentuðum, klipptum út og púsluðum þessu svo aftur saman fyrir lokaútlitið.
Á myndunum má sjá grunnútlit sem við gerðum og aukavalkosti til hliðanna. Þannig leggjum við áherslu á að með því að eiga föt og aukahluti sem passa saman skapast möguleikar á að leika sér með það sem finna má í fataskápnum þínum.
Allur fatnaður á myndunum var fengin að láni fyrir þetta verkefni í verslun sem rekin er á vegum fataverkefnis Rauða krossins.