Við lok náms á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 taka nemendur áfanga sem nefnist Lokaverkefni. Þar er markmiðið að samþætta alla námsþætti námsbrautarinnar og að gefa nemendum tækifæri til þess að fara í gegnum ferlið frá hugmynd til fullbúins verks með eina af hugmyndum sínum.
Nemendur velja eitt af skilaverkefnum námsársins og fá aðstoð við að útfæra það til sýningar á Uppskeruhátíð. Það var Claudia Hausfeld sem vann með nemendum í áfanganum.
Sara Sigurðardóttir –Enter at Your Own Risk
Enter at Your Own Risk fjallar um að skila skömminni og rjúfa keðjuna sem tengir okkur við áföll fyrri kynslóða. Áföll geta borist í gegnum DNA til fjölskyldumeðlima og haft áhrif á komandi kynslóðir. Sem gerendur eða þolendur eigum við stundum til að leita í aðstæður sem virðast kunnuglegar en geta að sama skapi verið skaðlegar sjálfum okkur og öðrum. Til að rjúfa vítahringinn er þörf á að breyta mynstrinu og vinna úr okkar eigin áföllum.
Verkið Enter at Your Own Risk var sett upp sem gagnvirk innsetning í myrkraherbergi Ljósmyndaskólans. Verkið inniheldur hljóðverk, ljósaverk, bókverk og myndlistarverk. Hluti verksins er með ,,trigger warning“ og voru hvorki ljósmyndir né upptökur heimilaðar inni í rýminu. Til að binda verkið saman var myndlistarverkið Trauma Bond, upprunalega unnið af Söru árið 2022, staðsett í vaskinum í myrkraherberginu. Trauma Bond er 2.4 metra langt verk samsett úr ljósmynd og stafrænni teikningu og var það hér í útfærslu sem miðaði að því að vinna með rauða ljósinu í rýminu.
Meðfylgjandi er innsýn inn í verkið Enter at Your Own Risk, þá hluta þess sem leyfilegir eru til birtingar.
/sr.