Skólinn

Markmið Ljósmyndaskólans er að kenna ljósmyndun, að auka veg ljósmyndunar á Íslandi og valmöguleika í menntun ljósmyndara með listsköpun að leiðarljósi.

Árið 2009 fékk Ljósmyndaskólinn viðurkenningu menntamálaráðuneytisins sem sérskóli á framhaldsskólastigi, skv. lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008.

Skólinn hefur staðfestingu Menntamálastofnunar sem einkaskóli á framhaldsskólastigi. Sjá viðurkenningarbréf hér.

Ljósmyndaskólinn hefur verið starfræktur síðan árið 1997. Frá og með skólaárinu 2007–2008 var boðið upp á fimm anna fullt nám við Ljósmyndaskólann og því hægt að ljúka þar 150 Fein einingum í skapandi ljósmyndun.

Námið var endurskipulagt árið 2017 og náminu skipt upp í tvær aðskildar námsbrautir í skapandi ljósmyndun; námsbraut 1 og námsbraut 2.

Það að hafa lokið námi á þeirri fyrri, eða sambærilegu námi, er forsenda þess að geta hafið nám á þeirri síðari. Er nám beggja námsbrauta skipulagt sem nám á fjórða námsþrepi, viðbótarnám eftir stúdentspróf og að loknu 150 Fein eininga-námi við skólann fá nemendur diplómagráðu í skapandi ljósmyndun.

Í ljósmyndun samtvinnast tæknilegir og listrænir þættir og er því áhersla lögð á kennslu í tækni sem varðar ljósmyndun til jafns við kennslu í aðferðum við listsköpun. Einnig er kennd listasaga og listfræði, nemendur fá æfingu í myndlestri, myndgreiningu og innsýn í kenningar og hugmyndafræði er varða skapandi greinar. Þessir grundvallarþættir eru allir hafðir að leiðarljósi í skipulagningu á námi beggja námsbrauta en áherslumunur er þó á námsframboði brautanna. Á þeirri fyrri er í fyrirrúmi að kenna á tæknina að baki ljósmyndun, aðferðir við hana sem og alla almenna myndvinnslu. Á seinni brautinni er megináhersla á að nemendur kynnist fjölbreyttu litrófi listsköpunar og helstu birtingarmyndum samtímamyndlistar. Áhersla er lögð á að þeir þrói og þroski hugmyndir sínar, áherslur og ætlanir með eigin myndsköpun.

Á námstímanum eru nemendur hvattir til gagnrýninnar og skapandi hugsunar, lögð er áhersla á að þeir temji sér öguð vinnubrögð og aukið sjálfstæði í verkum eftir því sem líður á námið og markmiðið að nemendur verði færir um markvissa og persónulega framsetningu á myndverkum af ólíkum toga að námi loknu.

Stefna Ljósmyndaskólans er að standast fyllilega samanburð við sambærilega skóla erlendis og vera þar í fremstu röð. Skólinn er í samstarfi við The Glasgow School of Art og Arts University Bournemouth. Geta nemendur Ljósmyndaskólans sótt um að ljúka þar námi til BA-gráðu eða sótt um hæfnismat til inngöngu í meistaranám.

Stór hópur helstu ljósmyndara landsins kenna við skólann en einnig grafískir hönnuðir, myndlistarmenn og fagfólk í ýmsum tengdum greinum.

Þær kröfur eru gerðar til allra kennara og fyrirlesara skólans að þeir séu með nám og/eða mikla starfsreynslu að baki í þeirri grein sem þeir kenna.  Allir kennarar skólans eru starfandi í sínu fagi og hafa getið sér gott orð fyrir störf sín.

Ljósmyndaskólinn ehf. er í einkaeigu en skólastjóri/framkvæmdastjóri stendur fyrir daglegum rekstri í umboði stjórnar skólans.

Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna
Umhverfisstefna
Stefnur og viðbragðsáætlanir
Ársreikningar og skýrslur
Ársreikningar og skýrslur