Hundrað vélar sem framleiða hvirfilbyl
Flestir eiga lítil minninga box inni í geymslu. Pappírssnifsi og smáhlutir sem settir voru í boxið sem fjársjóður, streyma síðar upp úr því sem fornminjar. Vísbendingar um fyrra sjálf og heim sem ekki er lengur til. Heim sem var lítill en jafnframt stór.
Í verkinu Hundrað vélar sem framleiða hvirfilbyl, á Sóley í samtali við krakka-sjálfið. Hún leikur sér með hugmyndir sem hún hafði um heiminn og lætur minjagripi úr boxinu vísa veginn; bláber verða að bleki og nærbuxur að leikfangi.
Verkið er sprottið úr minningum barns frá því skeiði þegar það verður meðvitað um gang tímans og endanleika alls. Náttúrulegur fylgifiskur þeirrar vitundar er löngunin til að muna og þörfin til að skrásetja minningarnar. Leiðirnar til skrásetningar geta verið margvíslegar; að skrifa á litla hnetu, að hripa á minnismiða eða að taka ljósmynd.