Hvaða bull er þetta?
Hvaða bull er þetta? er tilraun til að varpa ljósi á kvenfyrirlitningu sem virðist vera ríkjandi í íslenskri tungu. Þar er Steinar að glíma við hin ýmsu slangurorð sem öll eiga það sameiginlegt að vera niðurlægjandi í garð kvenna. Orðin hefur hann fundið í ýmsum textum og bókum eins og Óorð, bókin um vond íslensk orð og Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Þar sem slangurorð eru mjög myndauðug reynir Steinar að snúa orðunum á haus með myndrænum hætti. Á ljósmyndunum á sér stað einhvers konar afbökun þar sem fléttað er saman andstæðum og fjarstæðum til að vekja upp tilfinningu fyrir orðunum. Fáránleiki myndanna endurspeglar í raun fáránleika orðanna sem öll eiga það sammerkt að vera lituð af viðhorfum feðraveldis.