Þann 5. október opnar Telma Haraldsdóttir sýninguna My Book of Secrets í Litla Gallerýi á Strandgötu 19 í Hafnarfirði. Telma er nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 í Ljósmyndaskólanum.
Á sýningunni My Book of Secrets er að finna ljósmyndaverk þar sem höfundur verkanna leitast við að sýna hvernig miðillinn verður vettvangur sjálfsúrvinnslu, þar sem listamaðurinn hittir sjálfan sig fyrir, rannsakar og endurskilgreinir sjálfið.
Telma segir:
Síðustu ár hef ég verið að nota ljósmyndun sem miðil til að skapa. Ég nota oft sjálfa mig sem gínu eða bý til karaktertil að skapa ákveðna hugmynd sem ég fæ. Verkin mín eru nokkurs konar leið til að túlka hugmyndina sem ég hef um sjálfa mig og heiminn sem ég lifi í. Hver mynd er í senn framlenging af fortíðinni, hvaðan ég kem og það sem ég hef lært, sem og sýnishorn af framtíðinni hvert ég er að fara.
Mínir helstu áhrifavaldar í listsköpun eru Cindy Sherman, Tim Walker, Anja Niemi, Yasumasa Morimura og Uldus Bakthiozina.
Titillinn My Book of Secrets vísar í bækur sem konur héldu á 16. öld og innihéldu ýmsar uppskriftir og leiðbeiningar kvenna. Sýningin vísar þannig í „leyndarmálið“, eða það sem ekki mátti ræða opinskátt. My Book of Secrets er sýning á verkum sem sýnir upphafið að listsköpun höfundar og hvernig hún hefur þreifað sig áfram á þeim vettvangi, með útgangspunkt í karaktersköpun sem mótast af innri og ytri þáttum.
Þann 5. október opnar sýningin og þá er opið kl. 18-20 í Litla Gallerý í Hafnarfirði. Sýningin stendur til 8. október 2023. Sjá viðburð.
/sr.