Á báðum önnum náms á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 er áfangi sem heitir Svarthvít filmuframköllun og stækkun. Í þeim áfanga læra nemendur grunnhandtök við svarthvíta filmuframköllun og að handstækka myndir af filmum.
Kennarar áfanganna eru Ellen Inga Hannesdóttir, Stephan Adam og Agnieszka Sosnowska.
Á vormisseri er megin viðfangsefnið að ná tökum á prentun á fíber pappír. Nemendur læra að ganga frá handprentuðum ljósmyndum, gera við þær og eins að tóna ljósmyndir. Að tóna handprentaðar ljósmyndir er aðferð til að breyta lit svarthvítra ljósmynda. Tónun með ákveðnum efnum tryggði líka lengri endingu ljósmynda hér í árdaga miðils.
Þegar nemendur æfa tónun eru oft einnig gerðar ýmsar tilraunir.Hér segir Melkorka Gunnarsdóttir nemandi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 frá ferlinu sem hún og nokkrir bekkjarfélagar fóru í gegnum í seinni hluta áfangans.
Melkorka segir:
Í áfanganum Svarthvít filmuframköllun og stækkun eiga nemendur að skila tónuðum fíber prentum, seleníum og sepía, en einnig prenti þar sem gerðar eru tilraunir með önnur efni til litunnar prenta.
Við tókum okkur saman fjórar stöllur af fyrsta námsári og ákváðum að hittast, leika okkur og gera tilraunir. Tilraunahópinn skipuðu, auk Melkorku þær, Lilja Birna Arnórsdóttir, Drífa Huld Jóhannsdóttir og Brynja Bærings Sindradóttir.
Það var ákveðið að útbúa safa úr rauðkáli og nota sem undirstöðu í tilraun okkar.
Fyrsta tilraunin var að blanda saman rauðkáli, sítrónusafa og ediki, sem gaf myndunum fallegan rauðbleikan blæ.
Önnur tilraunin blönduðum við saman rauðkáli, matarsóda og ediki. Blandan lofaði góðu þar sem hún varð skær blá og við urðum allar spenntar yfir útkomunni. Við urðum hins vegar fyrir smá vonbrigðum þar sem myndin varð mun daufari en við bjuggumst við, varð fölblá.
Þegar kom að þriðju tilrauninni ákváðum við að prófa að blanda saman tveimur ofangreindum vökvum, sem sagt bleikum og bláum vökva. Útkoman var fagur fjólublár vökvi sem lofaði góðu. Hins vegar gerðist það sama og með bláa litinn, útkoman varð mun daufari en við vonuðumst til.
Auk tilraunaverkefnisins notuðum við vökvana sepía, sem gefur brúnan tón og seleníum, sem gefur meiri svarthvítan kontrast í myndina.



Þetta var afskaplega áhugavert verkefni, við lærðum heilmargt og skemmtum okkur konunglega. Ég mæli með að við leikum okkur meira, gerum áhugaverðar tilraunar og þannig skapa nýjar víddir og heima.
Afraksturinn úr þessu tilraunaverkefni er myndaröð þar sem sama myndefnið er í mismunandi litum eftir því hvaða efni var unnið með.
Ég kalla myndaröðina Tilraun að litrófi.






/sr.