Nemendur Námsbrautar í skapandi ljósmyndun 2 taka vinnustofuna Ljósmyndabókin. Arnar Freyr Guðmundsson leiddi vinnuna.
Megin markmið áfangans er að nemendur vinni eigin hugmynd í drög að bókverki. Kynnist vinnuaðferðum sem hægt er að beita við gerð bókverka og þjálfist í því að afmarka efni, að slípa þráð og skerpa á framsetningu í myndrænni frásögn. Markmiðið er einnig að nemendur kynnist ólíkum leiðum við framsetningu efnis í bókverki og auki við þekkingu á mikilvægi bókverka í samtímalistum.
Skilaverkefni nemenda í þessum áfanga eru fjölbreytt og framsetningin einnig enda möguleikar í bókverkagerð nánast óþrjótandi.
Agnes Vala Oddsdóttir skilaði bókverkinu Loftmyndir
Hún segir þetta um verkið:
Ég hef verið að taka loftmyndir af Íslandi og mitt áhugasvið er að reyna fanga hina ýmsu ólíku fleti landsins. Myndirnar sýna ekki einhvern ákveðinn stað heldur frekar skörp einkenni jarðarinnar séð úr lofti; form, ljós og skugga.
Myndirnar eru teknar á stafræna myndavél, í lit, en ég vel að hafa þær svarthvítar í þessu bókverki þar sem að ég tel að við það verði myndirnar meira lifandi fyrir þann sem á horfir og með því verði áhrifin af kröftugu landslaginu og formunum sem þar birtast sterkari.
/sr.