Sýning á útskriftarverkum þeirra nemenda sem útskrifast frá Ljósmyndaskólnaum í desember 2024, stendur í Ljósmyndasafni Reykjavíkur til 5. janúar 2025.
Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.
Vala Agnes Oddsdóttir er ein af útskriftarnemendum Ljósmyndaskólans að þessu sinni.
Hún sýnir verk sem nefnist Reitir og segir þetta um verkið:
Reitir er ljósmyndaverk byggt á reynslu minni úr björgunarsveitarstörfum, þar sem ég hef lært að skipuleggja leit í krefjandi aðstæðum. Kerfisbundin leit að vísbendingum hefur kennt mér að horfa á landslagið með nýjum augum. Í verkinu nálgast ég landslagið úr lofti. Loftmyndirnar sýna bæði heildarmyndina og smáatriði landslagsins frá einstöku sjónarhorni.
Þegar leitað er að týndum er landsvæði skipt í reiti til að tryggja vandaða rannsókn, þar sem hver reitur getur falið í sér nýjar og mikilvægar upplýsingar. Þess vegna hef ég hér, skipt landslaginu í reiti. Hver reitur er stækkaður í sérmynd, sem sýnir smáatriði og áferð landsins. Svart-hvítu myndirnar skapa dramatískan og tregafullan blæ með skýrum andstæðum ljóss og skugga, þar sem myrkrið og ljósið tákna bæði áskoranir og von ferðalangsins og þess sem leitar.
Með verkinu vil ég vekja fólk til umhugsunar um tengsl okkar við náttúruna – bæði fegurð hennar og ógnir. Reitir er ekki aðeins rannsókn á landslaginu heldur einnig á viðkvæmu sambandi manns og náttúru, þar sem hver ný sýn getur leitt til dýpri skilnings.
Heimasíða: www.valaagnes.com
/sr.