Námsbraut í skapandi ljósmyndun 2

Námsbrautin er skipulögð sem framhald af námi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 eða öðru sambærilegu námi. Á námsbrautinni er megináhersla á áframhaldandi þjálfun þess að beita ljósmyndamiðlinum á fjölþættan hátt til skapandi vinnu. Mikil áhersla er á að þjálfa frekar aðferðir við hugmyndavinnu sem og aðferðir við þróun eigin verkefna með aukið sjálfstæði í vinnubrögðum að leiðarljósi. Nemendum eru kynntar aðferðir til þess að sprengja út viðteknar hugmyndir um ljósmyndina og ljósmyndun og hvattir til að kanna í framhaldinu möguleikana handan þeirra marka. Í framhaldi af því er ætlast til þess að nemendur séu í stakk búnir til að staðsetja sig innan ljósmyndunar og fá þeir aðstoð við að byggja upp eigin vinnubók eða myndamöppu (portfólíó) sem endurspeglar áherslur hvers og eins.

Talsverður hluti námsins snýr að því að dýpka þekkingu nemenda á kenningarlegum og hugmyndafræðilegum þáttum er varða ljósmyndina sem listmiðil á öllum tímum en áherslan er þó ekki síst á mikilvægt hlutverk miðilsins í samtímamyndlist. Vinnustofur með listamönnum eru veigamikill hluti námsins á tveimur fyrri önnunum. Þar kynnast nemendur mismunandi nálgun á ljósmyndun sem listformi undir handleiðslu gestakennara sem allir eru starfandi ljósmyndarar/listamenn. Á þeim samstarfsvettvangi eru tekin fyrir fjölþætt verkefni sem tengjast listsköpun, svo sem hugmyndavinna, rannsóknir, aðferðir, tækni ýmiss konar sem snerta fjölbreytta birtingarmynd ljósmyndarinnar.

Kenndar eru greinar eins og ljósmynda- og listasaga og nemendur hljóta þjálfun í að fjalla um eigin verk og annarra. Einnig fá þeir þjálfun í því að greina ljósmyndir og önnur listaverk og setja í hugmynda- og menningarsögulegt samhengi.

Áhersla er á að kynna nemendum ýmsa hagnýta þætti þess að lifa af í listheimi samtímans. Fá nemendur kennslu í markaðsfræði skapandi greina, bókhaldi, gerð ferilskrár og aðstoð við að velja og útbúa efni til kynningar um sig, til birtingar á samfélagsmiðlum svo nokkuð sé nefnt.

Áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér persónulegt verklag og þroski eigin stíl og tjáningu. Markmiðið er að við lok námsins á námsbrautinnni verði nemendur færir um persónulega framsetningu á myndverkum af ólíkum toga.

Við námslok skrifa nemendur fræðilega lokaritgerð, standa skil á lokaverkefni fyrir samsýningu útskriftarnemenda og á kynningarefni á reikningi samfélagsmiðils að eigin vali.

Námi á námsbrautinni lýkur með diplóma í skapandi ljósmyndun.

Í lok námsbrautarinnar er gert ráð fyrir að nemendur:

  • hafi gott vald á öllum helstu námsþáttum annanna þriggja, hafi tileinkað sér fagleg vinnubrögð, geti sýnt persónuleg stílbrögð og unnið sjálfstætt að úrlausn verkefna
  • séu færir um framsetningu persónulegra myndverka
  • hafi kynnst ólíkri nálgun á ljósmyndamiðilinn, fjölbreyttri notkun hans og möguleikum til sköpunar
  • þekki helstu áherslur og aðferðir samtímaljósmyndunar, hvað varðar nálgun, úrvinnslu og tengsl við aðra listmiðla
  • hafi allgóða yfirsýn yfir þróun myndlistar á 20. öld, stöðu samtímamyndlistar og sé þar ljóst mikilvægt hlutverk nýrra miðla, s.s. ljósmyndunar
  • hafi hlotið þjálfun í að vinna hugmynda- og rannsóknarvinnu
  • hafi rannsakað eigin ætlanir og markmið með notkun miðilsins
  • geti sett fram sannfærandi verkáætlun um hvernig þeir hyggjast ná markmiðum sínum og kynnt niðurstöðuna með sjónrænum hætti og fært rök fyrir henni
  • hafi öðlast færni í að fjalla um hugmyndir sínar og verk og setja í hugmyndafræðilegt samhengi.
  • hafi fengið nokkra innsýn í virkni listheimsins, gert ferilskrá og hlotið m.a. þjálfun í að sækja um styrki og sýningar
  • hafi rannsakað mismunandi eðli samfélagsmiðla, fengið yfirsýn yfir möguleika sem felast í notkun samfélagsmiðla til kynningar. Hafi hlotið þjálfun í að safna og vinna efni og birta það til kynningar á verkum sínum
  • hafi öðlast færni í að greina ljósmyndir út frá félagslegu og menningarlegu samhengi og hlotið þjálfun í að koma niðurstöðum sínum á framfæri
  • hafi lokið við gerð myndamöppu/ vinnubókar (portfolio) og markaðsáætlunar
  • hafi staðið skil á lokaritgerð og lokaverkefni á samsýningu útskriftarnema.

720 námsstundir. Fyrirlestrar, sýnikennsla, vettvangsferðir, vinnustofur, hóptímar, einkatímar og sjálfstæð vinna undir handleiðslu, 368 stundir. Eigin vinna 352 stundir.

Helstu námsþættir og áherslur

Á önninni eru nemendur eindregið hvattir til að leita svara við spurningunni „Hvers konar ljósmyndari vil ég verða?“ og fá þeir margháttaða aðstoð við þá greiningu. Þeir eru hvattir til að nýta námsverkefnin til þess að gera tilraunir með miðilinn og að nálgast hvert viðfangsefni úr mismunandi áttum. Einnig er áhersla á að kynna þeim ýmsa hagnýta þætti er varða það að lifa og starfa í lisheiminum.

Nemendur öðlast frekari þekkingu á hinu margþætta eðli ljósmyndarinnar, þjálfa færni sína í því að greina ljósmyndir og í að koma niðurstöðum sínum á framfæri. Í vinnustofum kynnast nemendur mismunandi nálgun á ljósmyndun sem listform undir handleiðslu gestakennara sem allir eru starfandi ljósmyndarar/listamenn. Þar eru tekin fyrir fjölþætt verkefni sem tengjast listsköpun og endurspegla fjölbreytta birtingarmynd ljósmyndarinnar í samtímalist.

Nemendur hljóta þjálfun í því að nota samfélagsmiðla til kynningar á sér og verkum sínum og æfingu í að velja og útbúa efni til birtingar á slíkum miðlum.

Fjallað er um myndlist 20. og 21. aldar, tilkomu framúrstefnulistar og þróun samtímalistar með áherslu á tengingu við íslenska myndlist og mikilvægi nýrra miðla í samtímalist. Einnig fá nemendur aðstoð varðandi það að ná tökum á persónulegum stíl við úrlausn verkefna í stafrænni myndvinnslu og prentun.

Markmiðið í lok annar

  • Að nemendur hafi gott vald á helstu þáttum stafræna myrkraherbergisins, geti sýnt persónuleg stílbrögð og unnið sjálfstætt að úrlausn verkefna.
  • Að nemendur hafi kynnst ólíkri nálgun á ljósmyndamiðilinn, fjölbreyttri notkun hans og möguleikum til sköpunar.
  • Að nemendur hafi allgóða yfirsýn yfir þróun myndlistar á 20. öld, stöðu samtímamyndlistar og sé þar ljóst mikilvægt hlutverk nýrra miðla.
  • Að nemendur hafi hlotið þjálfun í rannsóknarvinnu og í að setja fram hugmyndir sínar með sjónrænum hætti og rökstyðja þær.
  • Að nemendur hafi öðlast færni í að greina ljósmyndir og ljósmyndaverk, og hafi hlotið þjálfun í að koma niðurstöðum sínum á framfæri.
  • Að nemendum hafi aukist sjálfstæði í vinnubrögðum og séu byrjaðir að þróa með sér persónulega nálgun á miðilinn.
  • Að nemendur hafi fengið nokkra innsýn í virkni listheimsins og hlotið þjálfun í að sækja um styrki og sýningar.
  • Að nemendur hafi rannsakað eigin ætlanir og markmið, skoðað mismunandi tegundir samfélagsmiðla og fengið allgóða yfirsýn yfir möguleikana sem felast í notkun þeirra til kynningar.
  • Að nemendur hafi kynnst ólíkum listamönnum, mismunandi hugmyndum, vinnubrögðum og aðferðum og aukið við skilning sinn á fjölþættri notkun ljósmyndamiðilsins til tjáningar og sköpunar.
  • Að nemendur hafi fengið enn frekari innsýn í að ljósmyndamiðillinn er notaður á ólíka vegu í samtímamyndlist og að mismunandi fagurfræðileg og hugmyndafræðileg gildi geta legið að baki notkun ljósmyndar sem listmiðils.
Áfangar

720 námsstundir. Fyrirlestrar/málstofa, vettvangsferðir, sjálfstæð vinna undir handleiðslu 341 stundir. Eigin verkefnavinna 379 stundir.

Helstu námsþættir og áherslur

Megin áhersla námsins á þessari önn er á að nemendur öðlist enn frekari leikni í að beita ljósmyndamiðlinum á fjölþættan hátt til skapandi vinnu. Undir lok annar er gert ráð fyrir að þeir hafi náð að skýra markmið sín með notkun miðilsins og séu komnir áleiðis í því að þróa með sér persónulega framsetningu á myndverkum af ólíku tagi. Einnig þurfa þeir að geta sett fram sannfærandi verkáætlun um hvernig þeir hyggjast ná markmiðum sínum.

Í hugmyndavinnu eru nemendum kynntar aðferðir til þess að sprengja út viðteknar hugmyndir um ljósmyndina og ljósmyndun og til að kanna í framhaldinu möguleikana handan þeirra marka. Margþætt eðli ljósmyndarinnar og ólíkar birtingarmyndir hennar eru skoðaðar og þau fagurfræðilegu og hugmyndafræðilegu gildi sem hvorutveggja móta miðilinn og taka breytingum vegna hans. Nemendur fá æfingu í að greina ljósmyndir og ljósmyndaverk og setja í margvíslegt samhengi.

Nemendur fá aðstoð við að skipuleggja vinnubók (portfolio) sína og í að meta hvað upp á vantar af efni til að þeir nái markmiðum sínum. Við annarlok leggja þeir vinnubók sína fram og kynna hana.

Nemendur fá einnig leiðbeiningu um það hvernig best er að standa að kynningu á verkum sínum á samfélagsmiðlum og læra ýmis hagnýt atriði varðandi stofnun, markaðssetningu og rekstur fyrirtækis í skapandi atvinnugreinum, meðal annars bókhald og gerð markaðsáætlana. Eins er farið yfir önnur hagnýt atriði varðandi það að lifa af í listheiminum, s.s. gerð ferilskrár, sölu verka, höfundarrétt og það að sækja um styrki.

Nemendur starfa áfram með listamönnum í vinnustofum,þar sem tekin eru fyrir verkefni er tengjast listsköpun. Kynnast þeir þar meðal annars helstu meginstraumum í listrænni samtímaljósmyndun í íslensku og erlendu samhengi. Í lok annar taka nemendur þátt í ljósmyndarýni. Þar leggja nemendur vinnu sína á ýmsum stigum fyrir rýninefnd og útskýra hugmyndir sínar og ætlanir. Rýninefndin gefur ábendingar um úrlausnir, kemur með hugmyndir og gefur umsögn á grundvelli kynningarinnar og þeirra gagna sem nemandinn hefur lagt fram máli sínu til stuðnings.

Fyrir lok 2. annar þarf nemandinn að leggja fram drög að vinnuferli sínu á 3. önn en markmiðið er að hver nemandi fái leiðbeinanda með lokaverkefni 3. annar, fyrir lok skólaársins. Fyrir lok annarinnar þarf nemandi einnig að leggja fram stutt drög að væntanlegum efnistökum fræðilegrar lokaritgerðar 3. annar.

Markmið í lok annar

  • Að nemendur hafi öðlast leikni í að beita ljósmyndamiðlinum á fjölþættan hátt til skapandi vinnu. Hafi náð að skýra markmið sín með notkun miðilsins og séu komnir áleiðis í því að þróa með sér persónulega framsetningu á myndverkum af ólíku tagi.
  • Að nemendur þekki helstu áherslur og aðferðir samtímaljósmyndunar, hvað varðar nálgun, úrvinnslu og tengsl við aðra listmiðla. Þekki einnig helstu meginstrauma í listrænni samtímaljósmyndun í íslensku og erlendu samhengi.
  • Að nemendur hafi öðlast færni í að greina ljósmyndir út frá félagslegu og menningarlegu samhengi, og hafi hlotið nokkra þjálfun í að koma niðurstöðum sínum á framfæri.
  • Að nemandi hafi lokið gerð vinnubókar (portfolio).
  • Að nemendur hafi fengið innsýn í hagnýta þætti er varða rekstur í skapandi greinum, s.s. bókhald og gerð markaðsáætlunar og þjálfun í þeim þáttum.
  • Að nemendur hafi hlotið þjálfun í hagnýtum þáttum þess að lifa af í listheiminum, s.s. gerð ferilskrár, sölu verka, umsóknarferli varðandi styrki og annað það er gagnast getur starfandi listamanni.
  • Að þeir hafi fengið þjálfun í að velja, vinna og kynna verk sín með ólíkum hætti í mismunandi samfélagsmiðlum. Að hver nemandi sé langt kominn með að móta það form kynningar sem hentar eigin áherslum.
  • Að nemendur hafi í lok annar lagt fram drög að lokaverkefni 3. annar og geti sett fram sannfærandi verkáætlun um hvernig þeir hyggjast ná markmiðum sínum.
  • Að nemandi hafi lagt fram stutt ágrip af áætluðum efnistökum ritgerðarverkefnis sem skilað er á 3. önn.
Áfangar

720 námsstundir. Fyrirlestrar 25 stundir. Sjálfstæð verkefnavinna og vinna undir handleiðslu, 695 stundir.

Helstu námsþættir og áherslur

Á þessari lokaönn námsins er megináhersla á sjálfstæða vinnu nemenda og vinnu þeirra undir handleiðslu kennara. Nemendur leggja lokahönd á það verkefni að byggja upp feril sem skapandi listamenn. Hver nemandi lýkur gerð markaðsáætlunar og eigin reikningi á völdum samfélagsmiðli til kynningar. Einnig vinnur hann fræðilega ritgerð og útskýrir þar hugmyndalegt inntak verka sinna og tengir við hugmyndafræði, strauma eða stefnur. Hver nemandi þarf einnig að standa skil á verki eða verkum á samsýningu nemenda í lok annar.

Markmið í lok annar

  • Að nemendur hafi staðið skil á markaðsáætlun, efni til kynningar á samfélagsmiðli, lokaritgerð og lokaverkefni á sýningu.
  • Að nemendur séu sjálfstæðir í vinnubrögðum og búi yfir gagnrýnni vitund um verkefni sín og úrlausnarleiðir.
  • Að nemendur séu færir um framsetningu persónulegra myndverka.
  • Að nemendur geti í skrifum og umræðum beitt greinandi aðferðum á verk sín og annarra og sett í mismunandi hugmyndafræðilegt samhengi.
  • Að nemendur hafi hlotið innsýn í almennan sýningarundirbúning og átti sig á mikilvægi uppsetningarmáta verka.
Áfangar
Ljósmyndaskólinn
Opnunartími skrifstofu
Virka daga 09:00 – 16:00
Lokað er í júlí og á almennum frídögum
Gagnlegar upplýsingar
Önnur gögn
Jafnréttisstefna
Móttökuáætlun
Áætlun gegn einelti, ofbeldi og áreitni
Viðbrögð við vá
Rýmingaráætlun
Persónuverndarstefna
Umhverfisstefna
Stefnur og viðbragðsáætlanir
Ársreikningar og skýrslur
Ársreikningar og skýrslur