Námsbrautin er skipulögð sem framhald af námi á Námsbraut í skapandi ljósmyndun 1 eða öðru sambærilegu námi. Á námsbrautinni er megináhersla á áframhaldandi þjálfun þess að beita ljósmyndamiðlinum á fjölþættan hátt til skapandi vinnu. Mikil áhersla er á að þjálfa frekar aðferðir við hugmyndavinnu sem og aðferðir við þróun eigin verkefna með aukið sjálfstæði í vinnubrögðum að leiðarljósi. Nemendum eru kynntar aðferðir til þess að sprengja út viðteknar hugmyndir um ljósmyndina og ljósmyndun og hvattir til að kanna í framhaldinu möguleikana handan þeirra marka. Í framhaldi af því er ætlast til þess að nemendur séu í stakk búnir til að staðsetja sig innan ljósmyndunar og fá þeir aðstoð við að byggja upp eigin vinnubók eða myndamöppu (portfólíó) sem endurspeglar áherslur hvers og eins.
Talsverður hluti námsins snýr að því að dýpka þekkingu nemenda á kenningarlegum og hugmyndafræðilegum þáttum er varða ljósmyndina sem listmiðil á öllum tímum en áherslan er þó ekki síst á mikilvægt hlutverk miðilsins í samtímamyndlist. Vinnustofur með listamönnum eru veigamikill hluti námsins á tveimur fyrri önnunum. Þar kynnast nemendur mismunandi nálgun á ljósmyndun sem listformi undir handleiðslu gestakennara sem allir eru starfandi ljósmyndarar/listamenn. Á þeim samstarfsvettvangi eru tekin fyrir fjölþætt verkefni sem tengjast listsköpun, svo sem hugmyndavinna, rannsóknir, aðferðir, tækni ýmiss konar sem snerta fjölbreytta birtingarmynd ljósmyndarinnar.
Kenndar eru greinar eins og ljósmynda- og listasaga og nemendur hljóta þjálfun í að fjalla um eigin verk og annarra. Einnig fá þeir þjálfun í því að greina ljósmyndir og önnur listaverk og setja í hugmynda- og menningarsögulegt samhengi.
Áhersla er á að kynna nemendum ýmsa hagnýta þætti þess að lifa af í listheimi samtímans. Fá nemendur kennslu í markaðsfræði skapandi greina, bókhaldi, gerð ferilskrár og aðstoð við að velja og útbúa efni til kynningar um sig, til birtingar á samfélagsmiðlum svo nokkuð sé nefnt.
Áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér persónulegt verklag og þroski eigin stíl og tjáningu. Markmiðið er að við lok námsins á námsbrautinnni verði nemendur færir um persónulega framsetningu á myndverkum af ólíkum toga.
Við námslok skrifa nemendur fræðilega lokaritgerð, standa skil á lokaverkefni fyrir samsýningu útskriftarnemenda og á kynningarefni á reikningi samfélagsmiðils að eigin vali.
Námi á námsbrautinni lýkur með diplóma í skapandi ljósmyndun.
Í lok námsbrautarinnar er gert ráð fyrir að nemendur:
- hafi gott vald á öllum helstu námsþáttum annanna þriggja, hafi tileinkað sér fagleg vinnubrögð, geti sýnt persónuleg stílbrögð og unnið sjálfstætt að úrlausn verkefna
- séu færir um framsetningu persónulegra myndverka
- hafi kynnst ólíkri nálgun á ljósmyndamiðilinn, fjölbreyttri notkun hans og möguleikum til sköpunar
- þekki helstu áherslur og aðferðir samtímaljósmyndunar, hvað varðar nálgun, úrvinnslu og tengsl við aðra listmiðla
- hafi allgóða yfirsýn yfir þróun myndlistar á 20. öld, stöðu samtímamyndlistar og sé þar ljóst mikilvægt hlutverk nýrra miðla, s.s. ljósmyndunar
- hafi hlotið þjálfun í að vinna hugmynda- og rannsóknarvinnu
- hafi rannsakað eigin ætlanir og markmið með notkun miðilsins
- geti sett fram sannfærandi verkáætlun um hvernig þeir hyggjast ná markmiðum sínum og kynnt niðurstöðuna með sjónrænum hætti og fært rök fyrir henni
- hafi öðlast færni í að fjalla um hugmyndir sínar og verk og setja í hugmyndafræðilegt samhengi.
- hafi fengið nokkra innsýn í virkni listheimsins, gert ferilskrá og hlotið m.a. þjálfun í að sækja um styrki og sýningar
- hafi rannsakað mismunandi eðli samfélagsmiðla, fengið yfirsýn yfir möguleika sem felast í notkun samfélagsmiðla til kynningar. Hafi hlotið þjálfun í að safna og vinna efni og birta það til kynningar á verkum sínum
- hafi öðlast færni í að greina ljósmyndir út frá félagslegu og menningarlegu samhengi og hlotið þjálfun í að koma niðurstöðum sínum á framfæri
- hafi lokið við gerð myndamöppu/ vinnubókar (portfolio) og markaðsáætlunar
- hafi staðið skil á lokaritgerð og lokaverkefni á samsýningu útskriftarnema.