720 námsstundir. Fyrirlestrar/málstofa, sýnikennsla, einkatímar, hóptímar og sjálfstæð verkefnavinna undir handleiðslu. 387 stundir. Eigin vinna 333 stundir.
Helstu námsþættir og áherslur
Farið er í þætti er varða myndavélina sem verkfæri ljósmyndarans, s.s. ljósop og hraða og önnur tæknileg atriði varðandi myndatökur. Kennd eru grundvallaratriði mynduppbyggingar og notkun ljóss við myndsköpun. Nemendur læra að vinna í myndveri (stúdíói) og meðhöndlun tilheyrandi tækjabúnaðar. Þeir læra einnig framköllun á svarthvítum filmum, stækkun og prentun af filmum. Nemendur læra grunndvallarþætti stafrænnar ljósmyndunar, flokkun og skipulag myndasafns síns og helstu þætti stafrænnar myndvinnslu. Þeir læra að vinna myndir fyrir prentun og fá kennslu í því að prenta á prentara skólans. Nemendur eru kynntir fyrir grunnhugtökum í hugmyndavinnu og hagnýtum atriðum varðandi ritun á texta, heimildanotkun og hvernig beita skal heimildatilvísunum. Farið er í sögu ljósmyndunar frá upphafi og fram yfir miðja 20. öld, í íslensku og alþjóðlegu samhengi, með tilliti til tengsla við hugmyndastrauma, liststefnur, tækniþróun og samfélagshræringar.
Í áföngunum öllum er áhersla á að nemendur leysi verkefni, kynni þau og setji í samhengi við kenningar, hugmyndir eða aðferðir. Nemendur eru hvattir til að þróa með sér þekkingu á mismunandi aðferðum við myndbyggingu og úrvinnslu verkefna og til þess að gera tilraunir með persónulega beitingu ljósmyndamiðilsins. Á önninni taka nemendur þátt í tveimur vinnustofum þar sem þeir vinna undir handleiðslu listafólks í afmarkaðan tíma.
Markmið í lok annar:
720 námsstundir. Fyrirlestrar/málstofa, vettvangsferðir, hóptímar, einkatímar og sjálfstæð verkefnavinna. 357 stundir. Sjálfstæð vinna, 363 stundir.
Markmið annar er að nemendum aukist færni í flestum þeim grundvallarþáttum ljósmyndunar sem þegar hafa verið kynntir. Áfram er hnykkt á vinnubrögðum og skilningi á ólíkum úrlausnarefnum í stafrænni ljósmyndun og nemendur þjálfaðir í því að nýta möguleika tækninnar til að ná fram tilætluðum áhrifum við úrlausn ólíkra verkefna.
Lögð er áhersla á að kenna mismunandi aðferðir við vinnu í myndveri (stúdíói) og að æfa enn frekar almenn vinnubrögð. Nemendur fá þjálfun í því að beita mismunandi tækni við lýsingu, glíma við flóknari lýsingaverkefni og markmiðið að þeir nái tökum á að nota mismunandi lýsingu í myndveri með ólíkum gerðum af ljósum og flössum.
Mikil áhersla er á frekari þjálfun í stafrænni ljósmyndun, vinnu með myndvinnsluforrit og að vinna myndir fyrir prentun. Nemendur læra að ganga frá ljósmyndum sínum til mismunandi tegundar prentunar og þurfa að þekkja litastjórnunarkerfi, myndvinnsluferli og helstu þætti prentferlisins.
Áhersla er á að nemendur hljóti frekari þjálfun í skapandi myrkraherbergisvinnu, sem og frágangi og uppsetningu á handprentuðum ljósmyndum.
Lögð er áhersla á aukið sjálfstæði nemenda í öllum þessum námsþáttum á þessari seinni önn námsbrautarinnar.
Nemendur halda áfram að tileinka sér aðferðir til að þróa og halda utan um hugmyndavinnu og eru krafðir um að nýta sér slíkt verklag í öllu námi við skólann. Þeir læra einnig mynduppbyggingu, skapandi beitingu myndmáls, táknfræði og túlkun myndmáls og fá þjálfun í greiningu og lestri myndverka. Fjallað er um ljósmyndina sem miðil í samhengi við sögu hugmyndaþróunar og stefnur og strauma í listasögu og einnig er nemendum kynnt ólík virkni mismunandi samfélagsmiðla og möguleikar þeirra til kynningar.
Í vinnustofum fá nemendur innsýn í ólíka nálgun á ljósmyndamiðilinn undir handleiðslu gestakennara sem allir eru starfandi ljósmyndarar/listamenn. Þar eru tekin fyrir margs konar verkefni sem tengjast listsköpun og nemendur fá innsýn í mikilvægt hlutverk ljósmyndarinnar í samtímalist.
Alla önnina er áhersla lögð á að hvetja nemendur til þess að nýta sér allar aðferðir og þekkingu til tjáningar á persónulegan máta og til að nálgast hvert verkefni með skapandi hugsun að leiðarljósi. Sömuleiðis er mikilvægi skipulagðra vinnubragða brýnt fyrir þeim.
Í lok annar gera nemendur verkefni sem samþættir alla námsþætti námsbrautarinnar. Það er jafnframt þjálfun í ferlinu „frá hugmynd til fullbúins verks“ þar sem hver nemandi vinnur eigið efni til sýningar en undir handleiðslu kennara. Afraksturinn er sýndur á Uppskeruhátíð skólans í maí.